*

Tíska og hönnun 21. nóvember 2017

Íslensk hönnun á verðlaunatannbursta

Almenningi var boðið að senda inn eigin hönnun á tannburstum.

Jordan, einn stærsti tannburstaframleiðandi heims, hefur sett á markað verðlaunatannburstann Fingerprint sem er íslensk hönnun. Guðný Magnúsdóttir hannaði tannburstann en hún sigraði í alþjóðlegum Jordan leik sem fram fór hér á landi sem og víða um heim á síðasta ári. Fingerprint tannburstinn verður einn af þeim tannburstum sem framleiddir eru sem 15 ára afmælisútgáfa Jordan Individual sem er mest seldi tannburstinn á Norðurlöndunum.

,,Það er auðvitað mikill og óvæntur heiður að tannburstinn sem ég hannaði sé kominn á markað og seldur víða um heim. Ég tók þátt í leiknum eiginlega alveg óvart ef þannig má að orði komast og því var það reglulega óvænt ánægja þegar mér var tilkynnt að ég hafi unnið keppnina. Mér datt í hug að nota fingrafar þar sem það er okkar sérkenni eins og tennurnar okkar. En það var það sem þeir hjá Jordan hrifust svo mikið af," segir Guðný sem starfar sem sölustjóri hjá 1819.is.

Guðný bar sigur úr býtum í Jordan leik sem heildverslunin John Lindsay stóð fyrir hér á landi. Almenningi var boðið að senda inn eigin hönnun á tannburstum og voru 10 þátttakendur valdir í úrslit af sérstakri dómnefnd þar sem m.a. var að finna Hugleik Dagsson.

,,Það er sérlega gaman að íslensk hönnun skyldi komast alla leið og bera sigur úr bítum í alþjóðlega Jordan leiknum. Fingerprint tannbursti Guðnýjar er nú kominn í verslanir hér á landi. Við teljum að hann muni vekja mikla athygli þar sem hann er íslensk hönnun. Ekki skemmir fyrir hvað hann er töff og skemmtileg hugsun þarna að baki hjá Guðnýu með fingrafarið. Individual tannburstarnir eru ekki bara flottir heldur eru þeir með betri tannburstum á markaðnum í dag og þeir mest seldu á Norðurlöndunum," segir Kristín J. Rögnvaldsdóttir, viðskiptastjóri hjá John Lindsay.

 

Fingerprint tannburstinn er nú kominn á markað og í verslanir hér á alndi sem og víðar í heiminum.