*

Menning & listir 4. janúar 2021

Íslensk mynd meðal þeirra bestu 2020

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur er á meðal tólf bestu kvikmynda ársins 2020 að mati gagnrýnanda Financial Times.

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, er á meðal tólf bestu kvikmynda ársins 2020 að mati gagnrýnanda Financial Times.

Í samantektinni er meðal annars fjallað um hve óvenjulegt síðasta kvikmyndaár hafi verið, þar sem framleiðendur þurftu að sætta sig við að kvikmyndir þeirra væru teknar til sýninga á skjáum heimilanna í stað þess að fá að njóta sín á tjöldum kvikmyndahúsa.

Efst á lista í samantekt FT er Small Axe, mynd Steve McQueen um líf hörundsdökkra Breta, stórmynd sem þó fór strax í sýningu á sjónvarpsstöðinni BBC vegna aðstæðna.

Á eftir Small Axe er kvikmyndin Uncut Gems frá Safdie brothers og sú þriðja á lista er óskarsverðlaunamyndin Parasite frá Bong Joon-ho. Þá eru næstar kvikmyndirnar His House, The Vast of Night, Da 5 Bloods, Rocks og Time.

Hvítur, hvítur dagur er sú níunda á lista en á eftir henni eru myndirnar Les Misérables, 1917 og loks Collective.