*

Menning & listir 7. nóvember 2015

Íslenskar silkislæður slá í gegn erlendis

Saga Kakala hannar vandaðar silkislæður í samstarfi við framúrskarandi íslenska hönnuði.

Ásta Andrésdóttir

Saga Kakala var stofnað árið 2013 með það að markmiði að búa til litríkar silkislæður í hæsta gæðaflokki. Að baki merkinu stendur Ingibjörg Gréta Gísladóttir, menntuð leikkona og viðskiptafræðingur með meistarapróf í nýsköpun og frumkvöðlafræðum. Hún stofnaði fyrirtæki sitt, Reykjavík Runway, árið 2011 og hóf að vinna að markaðssetningu íslenskrar hönnunar erlendis, þá aðallega í Bandaríkjunum. 

Við hönnun hverrar slæðulínu fær Ingibjörg Gréta til liðs við sig þekkta íslenska hönnuði. Nú þegar hafa Helga Björnsson og Hjalti Karlsson hannað sína línuna hvort. Helga starfaði um áratugaskeið í París sem yfirhönnuður tískuhúss Louis Féraud en Hjalti starfrækir hönnunarstúdíóið Karlssonwilker í New York.

„Með Saga Kakala fæ ég útrás fyrir skapandi þáttinn í sjálfri mér. Að vinna frá hugmynd og að endanlegri útkomu með hönnuðum listamönnum á sínu sviði – er einstaklega gefandi. Markmiðið er alltaf að gera klassískar eðalslæður undir merkjum ,,slow fashion“. Hins vegar koma ekki mörg eintök af hverri slæðu hér á markað því að ég vil ekki yfirkeyra markaðinn hér heima. Stefnan hefur alltaf verið alþjóðlegur markaður og er ég að vinna í því þessa dagana,“ segir hún. Þess má geta að merkið  fékk silfur-viðurkenningu fyrir prent og mörkun í Design Annual 2016 keppninni.

„Slæður eru skemmtilegt tvist, þær poppa heildarútlitið upp á svo marga og áhugaverða vegu og svo er líka svo gaman að gefa fallega slæðu. Helsti markhópur merkisins er þessar sjálfstæðu konur á öllum aldri sem kunna gott að meta, njóta lífsins og hafa listrænt auga. Slæðurnar eru aukahlutur, punkturinn yfir i-ið.“

Slæðurnar fást í Kraum og Gallería Reykjavík, auk þess sem hluti af línunum fæst á Hilton hótelinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.