*

Menning & listir 10. júní 2013

Íslenski dansflokkurinn flytur Ótta í Svíþjóð

Á sameiginlegri sýningu fimm dansflokka í Malmö mun Íslenski dansflokkurinn flytja hið alíslenska verk Ótta.

Íslenski dansflokkurinn mun 15. júní næstkomandi sýna verkið Ótta eftir Ásgeir Helga Magnússon, Hjördísi Lilju Örnólfsdóttur og Unni Elísabetu Gunnarsdóttur á sýningu í Malmö. Verkið verður sýnt á kvöldinu REPNET HOT HOUSE sem er sameiginleg sýning fimm dansflokka frá jafnmörgum löndum. Hver dansflokkur flytur verk sem samið er af dönsurum innan sinna raða.

Flokkarnir fimm eru frá Íslandi, Svíþjóð, Skotlandi, Þýskalandi og Noregi. Yfirstandandi sýningarár Íslenska dansflokksins hefur verið einstaklega viðburðarríkt og sýndi flokkurinn til að mynda þrjú verk í maímánuði. Ótta var fyrst sýnt í Borgarleikhúsinu þann 22. nóvember og aftur á sýningarkvöldinu Walking Mad.