*

Hitt og þetta 8. febrúar 2006

Íslenskir fyrirlesarar í klúbbi hinna útvöldu

Danska viðskiptatímaritið Börsen stendur fyrir mikilsmetnum einkaklúbbi sem meðal annars stendur fyrir mjög áhugaverðum fyrirlestrum. Á morgun verður þar haldinn fundur sem helgaður er íslenskum fjárfestum og útrás þeirra. Hefur tekist að safna saman dágóðum hópi og þar á meðal flestum af stórkanónum íslensks viðskiptalífs, svo sem Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Hannesi Smárasyni, Ámanni Þorvaldssyni, bræðrunum Lýði og Ágústi Guðmundssonum og Þórði Friðjónssyni, forstjóra íslensku kauphallarinnar. Er ekki að efa að fundurinn verður lærdómsríkur fyrir þá Dani sem á annað borð leggja leið sína þangað.

Hver er söluhagnaður af Senu?
Samkvæmt tilkynningu Dagsbrúnar mun félagið greiða fyrir Senu með 1.600 milljónum króna í reiðufé auk hlutabréfa í Dagsbrún að nafnvirði 266,7 milljónir króna. Kaupverð Senu er tengt gengi hlutabréfa í Dagsbrún þar sem aukagreiðsla fellur til verði gengi bréfa Dagsbrúnar undir 7,5. Reiknað kaupverð Senu er því að mati greiningardeildar Íslandsbanka um 3,6 milljarðar króna. Þetta þýðir að þarna hefur myndast myndarlegur hagnaður hjá Róbert Melax, aðaleiganda Senu og stærsta hluthafa í Degi Group, móðurfélagi Senu. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað hann borgaði fyrir eignir Skífunnar á sínum tíma þegar Norðurljós seldu en menn telja að það hafi verið á bilinu 2,3 til 2,5 milljarðar króna þannig að söluhagnaðurinn er líklega ríflega milljarður króna en það veltur auðvitað að hluta til á gengisþróun Dagsbrúnar. Auk þess heldur Róbert eftir nokkru af eignum þeim sem féllu áður undir Skífuna, svo sem verslunarumboð en líklega var þó seldur arðsamasti hlutinn. Ekki mun þó alveg útséð hvernig þessi hagnaður skiptist því í gangi munu vera málaferli milli eigenda Dags Group, þeirra Róberts og Sverris Bergs Steinarssonar, sem nú rekur raftækjaverslunina Merlin í Danmörku. Sverrir var áður forstjóri Dags Group og eigandi Next verslunarinnar á Íslandi. Höfðu hann og Róbert myndað með sér félagið Nortex ehf. sem átti 35% í Degi Group. Eftir að ágreiningur kom upp milli þeirra félaga, meðal annars vegna kaupanna á Merlin, þykir ljóst að það þurfi tilstyrk dómstóla til að deila út hagnaðinum af sölu Senu.

Sinnir Baugur löggæslu á Nesinu?
Sem kunnugt er þá hefur Dagsbrún, sem að stórum hluta er í eigu Baugs, keypt öryggisþjónustufyrirtækið Securitas og hyggst nýta sér að rafeindavirkjar starfa í báðum félögum. Er ekki að efa að innan skamms verður hægt að kaupa öryggisgæslu í gegnum M12 klúbb Stöðvar 2! Það vakti reyndar athygli fyrir skömmu að Securitas hefur tekið að sér ákveðna löggæslu á Seltjarnarnesinu og hefur þannig dregið úr innbrotum og smáglæpum. Samkvæmt frétt Ríkissjónvarpsins borgar bærinn Securitas 200 þúsund krónur á mánuði fyrir að halda innbrotsþjófum frá verðmætu innbúi þeirra Seltirninga og þykir það bara vel sloppið.

Endurkoma Engeyjarættarinnar
Kaup Bílanausts á Olíufélaginu hefur, sem vonlegt er, vakið mikla athygli en aðaleigendur Bílanausts eru Benedikt Sveinsson og fjölskylda eða Engeyjarættin svokallaða. Margir hafa haldið því fram að tími gömlu valdaættanna sé liðin í íslensku viðskiptalífi en það virðist aldeilis ekki vera. Það er einnig áhugavert við þessi kaup að fjölskyldan hefur áður komið að rekstri olíufélags en hún átti sterk ítök í Skeljungi í gegnum eignarhald sitt á Eimskipafélaginu og Sjóvá. Þá var Benedikt Jóhannesson fulltrúi ættarinnar í stjórn félagsins og reyndar sem stjórnarformaður. Nú er spurningin hvort hann tekur að sér að vera stjórnarformaður Olíufélagsins sem einu sinni var stolt samvinnumanna á Íslandi.