*

Matur og vín 8. september 2012

Íslenskt já takk

Íslenskt lífrænt grænmeti er hágæðavara og hægt er að sjá og finna muninn á vörunni.

Hrefna Rósa Sætran

Mikil gróska er í þróun íslenskra afurða sem er alveg frábært. Það er verið að nýta það sem landið hefur upp á að bjóða og það hefur aukist til muna eftir hrunið margrædda. Margir eru að rækta og framleiða lífrænar vörur og vaknar þá oft sú spurning hvort að lífrænt sé betra heldur en það sem er ekki ræktað lífrænt og þar frameftir götunum.

Það er mikið vitnað í rannsóknir sem gerðar eru erlendis og ég spyr í framhaldinu, eru þær marktækar yfir okkar grænmeti? Á Íslandi er kaldari jarðvegur svo að grænmetið vex hægar og nær að taka í sig meira af vítamínum en þar sem jarðvegurinn er heitur. Að sama skapi náum við ekki að rækta jafn ört og hinir og ekki sömu flóruna jafn auðveldlega.

Ég er alls enginn sérfræðingur í þessum málum en ég tel að íslenskt grænmeti sé hágæða vara. Sérstaklega þetta lífræna. Maður sér og finnur muninn á vörunni. Ég held að við ættum að hætta að lesa rannsóknir frá útlöndum og dæma fyrir okkur sjálf. Og auðvitað styrkja okkur sjálf og hvort annað. Að kaupa íslenskt er gott fyrir umhverfið hvort sem einhver rannsókn í bandaríkjunum segir að það sé hollara eður ei. Engin millilandaflutningur.

Einnig er mikið rætt um unnar kjötvörur og þá miðar fólk oft við tölur frá öðrum löndum. Við erum heppin á Íslandi. Það er ekki mikið um fjöldaframleiðslu og við erum ekki að setja sömu aukaefni í matinn og er gert t.d. í Bandaríkjunum. Það kom til mín kona í vikunni sem er ásamt manni sínum að hefja framleiðslu á íslensku svína- og hrossakjöti sem er meðhöndlað eins og hágæða ítalskar skinkur. Kjötið er þurrkað og unnið á gamla mátann og engin aukaefni sett í það. Frábær vara sem ég mun versla af þeim og selja á veitingastöðunum mínum. Auðvitað er hreint kjöt betra en mikið unnið og á það við allar vörur en ég held að við þurfum ekki að vera alveg svona hrædd við okkar afurðir því í þær er notað hágæða íslenskt kjöt og afurðir sem við borðum á hverjum degi. Áfram ísland!