*

Bílar 3. mars 2013

Íslenskt sauðfé í nýrri Benz auglýsingu - myndband

Auglýsing Mercedes-Benz þar sem nýr CLA lúxusbíll var kynntur til leiks var tekin í Mývatnssveit.

Íslenskt sauðfé er í aðalhlutverki í auglýsingu frá Mercedes-Benz þar sem nýi CLA lúxusbíllinn er kynntur til leiks. Tvær auglýsingar voru gerðar með bílnum hér á landi sl. haust og skartar önnur þeirra íslensku sauðfé í náttúru Mývatnssveitar.

„Kvikmyndatökulið var hér þrjá daga hér í sveitinni að skjóta auglýsinguna. Við bændurnir á torfunni  ásamt félögum úr björgunarsveitinni í Mývatnssveit gerðum okkar besta í að  leikstýra um 600 rollum og þar af voru 200 þeirra litaðar í öllum regnbogans litum,“ segir Anton Freyr Birgisson.

Faðir hans, Birgir Hauksson , bóndi á Hellu í Mývatnssveit, á flestar rollurnar sem notaðar voru í auglýsingunni en nágrannabændur lánuðu einnig sauðfé til að ná þeim fjölda sem þurfti.

Pegasus sá um að kvikmynda auglýsinguna fyrir Mercedes-Benz. Stærstur hluti hennar var tekin upp á jörðinni Grímsstöðum í Mývatnssveit og einnig á þjóðveginum þar sem CLA ók um með íslenska náttúru allt í kring.

„Það þurfti að loka þjóðvegi 1 tímabundið hérna og færa suður fyrir vatnið. Þá voru allar stikur færðar af þjóðveginum með leyfi Vegagerðarinnar. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og rollurnar stóðu sig vel. Við þurftum að setja upp hálfgert girðingavirki til að geta stýrt þeim betur,“ segir Anton og brosir.

Birgir faðir hans segir að það hafi verið raunar mikið happ að rollurnar léku í auglýsingunni og voru allar litaðar því sem kunnugt er skall mikið fárviðri á skömmu eftir að tökum á auglýsingunni lauk.

„Það gerði mikla stórhríð og allt snjóaði hér í kaf. Þá fórum við út að smala og leita að fé og rollurnar sem voru litaðar í auglýsingunni voru auðfundnar. Leiklistarferillinn bjargaði þeim líklega,“ segir Birgir glottandi.

 Hér má sjá auglýsinguna sjálfa: