*

Hitt og þetta 6. maí 2013

Íslenskur bar á lista yfir vinsæla drykki frá Hollywood

Listi með 10 hressum drykkjum frá Hollywood hefur verið tekinn saman af Cheapflights.com. Lebowski bar í Reykjavík kemst á listann.

Tekinn hefur verið saman listi þar sem finna má 10 vinsæla kokteila sem allir koma fyrir í bíómyndum eða sjónvarpsþáttum. 

Vegna þessara bíómynda og sjónvarpsþátta hafa drykkirnir orðið mjög vinsælir. Kokteila eins og Cosmopolitan eða mojito þekkja flestar hressar barflugur í dag. Athygli vekur að í sjöunda sæti er íslenski barinn Lebowski bar en þar er mælt með drykknum White Russian. En ekki hvað? Hér má sjá fréttina á Stuff.co.nz.

1. Drykkurinn: French 75. Bíómynd: Casablanca – París, Frakkland.

French 75 er blanda af gini, kampavíni, sítrónusafa og sykri. Talið er að drykkurinn hafi fyrst verið blandaður í París árið 1915  á bar sem í dag heitir Harry´s New York Bar.

2. Drykkurinn: Vodka martíni. James Bond myndirnar – London, Bretland.

Margir martíni sérfræðingar segja að alvöru martíni sé blandaður með gini, ekki vodka. En frasinn: „Shaken, not stirred” er líklega það sem flestir hugsa þegar minnst er á drykkinn vinsæla. Mælt er með barnum Icebar í London ef fólk vill drekka alvöru vodka martíni.

3. Drykkurinn: Red Eye. Bíómynd: Coctail – Tókýó, Japan.

Red Eye þótti hinn besti þynnkubani í bíómyndinni Cocktail sem gerði allt vitlaust árið 1988. Í drykknum er blanda af bjór, tómatasafa og egg. Besti Red Eye drykkur í Tókýó er víst á Park Hyatt hótelinu.

4. Drykkurinn: Old Fashioned. Sjónvarpsþáttur: Mad Men – Louisville, Bandaríkin.

Sykurmoli leystur upp í blöndu af viskíi með kirsuberi og appelsínusneið kallast Old Fashioned. Þessi er orðinn mjög vinsæll síðan liðið í Mad Men þáttunum fór að þamba drykkinn frá morgni til kvölds. Skemmtilegt svæði í Louiseville heitir Urban Bourbon Trail þar sem bestu bari og veitingastaði er að finna og þar er tilvalið að panta einn Old Fashioned. 

5. Drykkurinn: Cosmopolitan. Sjónvarpsþættirnir: Sex and the City – San Francisco.

Flestir tengja Cosmopolitan við New York borg en San Francisco var fyrsta borgin sem kom drykknum á kortið. Sögur segja að drykkurinn hafi verið fundinn upp á Míami. Því er þó enn haldið fram í dag að sítrusbragðið, sem blandast svo fullkomlega við sætabragðið, sé barþjónum San Francisco að þakka.

6. Drykkurinn: Mai Tai. Bíómyndin: Blue Hawaii – Honolúlú, Havaí.

Fyrir tíma jarðarberja daiquirí og pína kolada var drykkurinn Mai Tai drukkinn í hitabeltinu. Drykkurinn var þó fundinn upp í Kaliforníu en í upphafi 6. áratugarins varð hann einn vinsælasti drykkurinn á Havaí. Í upprunalegu útgáfunni er romm, appelsínu curacao og lime en útgáfurnar eru fleiri í dag.

7. Drykkurinn: White Russian. Bíómyndin: The Big Lebowski – Reykjavík, Ísland.

Vodki og kaffilíkjör eru í drykknum Black Russian sem varð vinsæll í upphafi 6. áratugarins. Fljótlega var farið að bæta mjólk og rjóma í drykkinn og þar með fæddist hinn ástsæli White Russian. Og þó að útgáfur af drykknum séu margar þá þykir Lebowski barinn í Reykjavík sá besti í heimi þegar panta skal White Russian, enda sautján útgáfur af drykknum í boði þar.

8. Drykkurinn: Manhattan. Bíómyndin: Some Like it Hot - New York, Bandaríkin.

Í Manhattan er blanda af viskíi, sætum vermouth og bitter, svo drykkurinn er sterkur og heppilegastur fyrir þau sem þola mikið áfengismagn í einu glasi. Drykkurinn var fyrst blandaður á klúbbnum Manhattan Club árið 1870.

9. Drykkurinn: Mojito. Sjónvarpsþættir: Miami Vice - Havana, Kúba.

Þó að mojito hafi fyrst orðið vinsæll meðal kokteiláhugafólks síðustu árin má rekja drykkjuslóðina allt aftur til 16. aldar á Kúbu. Það var einmitt á Kúbu á La Bodeguita del Medio þar sem Ernest Hemingway skrifaði á vegg barsins: „My mojito in La Bodeguita, my daiquiri in La Floridita.”

10. Drykkurinn: Singapore Sling. Bíómynd: Fear and Loathing in Las Vegas – Singapúr.

Sæti ávaxtakokteillinn er hugarfóstur Raffles Hotel Singapore og var víst fundinn upp eitthvað fyrir árið 1915. Þó uppskriftinni hafi verið breytt síðan, þá er gin, kirsjuberjalíkjör, appelsínulíkjör, benedictine, grenadín, bitter og ananassafi í alvöru Singapore Sling. The Long Bar á Raffles Hotel Singapore er enn þann dag í dag besti barinn ef drekka á kokteilinn.