*

Tíska og hönnun 17. ágúst 2018

Íslenskur hönnuður slær í gegn í L.A.

Íslenski hönnuðurinn Gulla Jónsdóttir hefur hannað hótel í Los Angeles og hefur hönnunin vakið mikla athygli.

Stuttu eftir að íslenski hönnuðurinn Gulla Jónsdóttir opnaði hönnunarfyrirtæki sitt í Los Angeles í Bandaríkjunum var henni tilkynnt af leigusalanum að stefnt væri að opnun hótels í rýminu sem hún leigði. Góðu fréttirnar væru hins vegar þær að hann vildi fá hana til að hanna hótelið. Þetta kemur fram í tímaritinu Forbes

The La Peer Kimpton nefnist hótelið sem opnaði fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er skammt frá Hönnunarmiðstöð Kyrrahafsins (e. Pacific Design Center) og Melrose Avenue. 

La Peer er þó ekki fyrsta hótelið sem Gulla og hönnunarteymi fyrirtækis hennar hefur hannað, en að sögn Gullu var vinnan við gerð þessa hótels einstaklega persónuleg og ánægjuleg. Hún hannaði einnig hótelið Cabo Azul Hotel en það vann til virtara verðlauna. 

Gulla lýsir hönnun sinni sem einstaklega fagurfræðilegri, innblásna úr náttúrunni og ljóðræna. Hún segir að hótelhönnun taki um það bil fimm ár en hún setti önnur verkefni á ís meðan hún vann að hönnuninni ásamt teymi sínu. 

Í lok viðtalsins segir Gulla að það sé mögulega sökum þess að hún sé frá Íslandi að hún hafi hugarfarið að allt muni „reddast“ að lokum. En hún trúi því sannarlega að ef maður láti hjartað ráða för, fylgir innsæi sínu og ástríðu sé allt mögulegt.