*

Ferðalög & útivist 29. apríl 2013

Ísraelsk stjórnvöld mega skoða tölvupósta ferðamanna

Ferðamenn sem hyggjast heimsækja Ísrael verða að vera við því búnir að þurfa að opna tölvupósta sína fyrir öryggissveitum á flugvöllum.

Öryggissveitir í Ísrael hafa nú leyfi til að lesa tölvupósta ferðamanna sem heimsækja landið. Þetta tilkynntu ísraelsk stjórnvöld í síðustu viku.

Stjórnvöld hafa þó aðeins leyfi til að lesa tölvupósta sé staðfestur grunur á því að eitthvað misjafnt kunni að leynast þar. Þetta er enn ein leiðin í baráttunni við hryðjuverk að sögn stjórnvalda.

Mannréttindahópar hafa gagnrýnt nýju löggjöfina og segja hana brot á friðhelgi ferðamanna. Ríkissaksóknari svarar því að hryðjuverkamenn noti erlenda ferðamenn í auknum mæli til að fremja hryðjuverk og því verði stjórnvöld í landinu að vera vakandi þegar ferðamenn eiga í hlut. 

Yigal Palmor, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Ísrael, sagði að öryggissveitir mættu lagalega séð biðja um að fá að lesa tölvupóst en enginn verði neyddur til að verða við þeirri beiðni. Neiti ferðamaður hins vegar að hlýða beiðninni verði það óneitanlega tekið til greina þegar ákveða eigi hvort honum verði hleypt inn í landið. 

CNN segir nánar frá málinu á fréttasíðu sinni. 

Stikkorð: Hryðjuverk  • Ísrael  • Öryggissveitir