*

Sport & peningar 26. maí 2012

Istanbúl, Tókýó og Madrid keppa um ÓL2020

Doha í Katar og Baku í Azerbaijan duttu út úr umsóknarferli um að halda ólympíuleikana árið 2020.

Istanbúl í Tyrklandi, Tókýó í Japan og Madrid á Spáni eru þær borgir sem áfram keppa um að halda Ólympíuleikana árið 2020. 

Þetta var ákveðið á fundi alþjóðaólympíunefndarinnar sem haldinn var í Quebec í Kanada í gær. Doha í Katar og Baku í Azerbaijan (þar sem Eurovison keppnin fer fram í kvöld) voru útilokaðar úr ferlinu, en allar framangreindar borgir hafa unnið að því að fá að halda leikana árið 2020. Doha hafði sóst eftir því að fá að halda leikana í október 2020, til að forðast þann gífurlega hita sem myndast á svæðinu á sumrin. HM í knattspyrnu mun fara fram í Doha árið 2022.

Í frétt BBC um málið kemur fram að þetta er í annað sinn sem Doha og Baku detta út úr ferlinu, en þær höfðu báðar sóst eftir því að halda ólympíuleikana árið 2016 (sem haldnir verða í Rio de Janeiro í Brasilíu).

Tilkynnt verður hver fær að halda leikana árið 2020 í Buenos Aires í Argentínu í september á næsta ári. Það er 15 manna framkvæmdaráð ólympíunefndarinnar sem tekur ákvörðun um hvar leikarnir eru haldnir.

Ólympíuleikarnir hafa einu sinni verið haldnir í Tókýó (1964) en aldrei í Istanbúl eða Madrid. 

Sem kunnugt er fara ólympíuleikarnir fram í Lundúnum dagana 27. júlí til 12. ágúst í sumar.