*

Bílar 7. desember 2012

Ítalir eignast hlut í Aston Martin

Framleiðendur bíla undir merkjum Aston Martin vonast nú til að geta keyrt fram úr Porsche og Ferrari.

Ítalska fjárfestingarfélagið Investindustrial hefur keypt 37,5% hlut í breska sportbílaframleiðandanum Aston Martin. Kaupverðið er 150 milljónir punda, jafnvirði 30 milljarða íslenskra króna. Ítalski sjóðurinn ætti að kannast ágætlega við sig í ökutækjabransanum en hann átti um hríð hlut í mótorhjólafyrirtækinu Ducati. Hlutinn seldi sjóðurinn fyrr á árinu. Ítalarnir og indverska félagið Mahindra & Mahindra börðust um hlutinn. Um nýtt hlutafé er að ræða sem á að styrkja rekstur Aston Martin í samkeppninni við framleiðendur glæsibifreiða á borð við Porsche og Ferrari.

Þrátt fyrir að Aston Martin hafi um áratugaskeið verið tengt Bretlandi og myndunum um ævintýri njósnarans James Bond, þá hefur fyrirtækið verið að mestu í eigu fjárfesta af öðru þjóðerni um árabil. Bandaríski bílarisinn Ford keypti reksturinn árið 1994 en seldi hann til kúveiska fjárfestingafélagsins Investment Dar árið 2007. Sjóðurinn á nú 64% hlut í Aston Martin. 

Í tilboði InvestIndustrial var boðið fram tæknisamningur við þýska bílaframleiðandann Mercedes Benz en hár þróunarkostnaður bíla Aston Martin hefur fram til þessa verið helsti þröskuldur fyrirtækisins í samkeppninni við aðra bílaframleiðendur. Vonast er til að með samningnum lækki kostnaðurinn og að Aston Martin keyri fram úr keppinautunum. 

Stikkorð: Aston Martin