*

Sport & peningar 18. maí 2018

Ítalir styðja Ísland á HM

La Gazzetta dello Sport, helsta íþróttablað Ítalíu, hefur ákveðið að halda með íslenska landsliðinu á HM.

Trausti Hafliðason

Í fyrsta skiptið frá árinu 1958 verður Ítalía ekki þátttakandi á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Í nóvember í fyrra tapaði Ítalska liðið fyrir því sænska í umspili um laust sæti á HM. Eðlilega var þetta mikið áfall fyrir ítalska knattpyrnuáhugamenn.
Í kjölfarið á þessu gerði La Gazzetta dello Sport, útbreiddasta íþróttablaðið á Ítalíu, könnun á meðal lesenda sinna. Spurt var hvaða lið þeir hygðust styðja á HM Í Rússlandi og niðurstaðan var afgerandi. Flestir sögðust ætla að styðja lið Íslands.

Blaðið birti í dag heilsíðugrein, þar sem ritstjórn blaðsins lýsir því yfir að líkt og meirihluti lesenda blaðsins, muni hún halda með Íslandi á HM í Rússlandi. Fyrirsögn greinarinnar er: „#ForzaIslanda: Quei vichinghi simpatici e geniali" eða #ÁframÍsland: Snjöllu og viðkunnalegu víkingarnir.

„Ísland hefur vaknað. Þessir skeggjuðu Norðurlandabúar, sem sprottið hafa upp úr jarðvegi elds og íss, eru nú orðnir meistarar með boltann," segir í greininni. „Eftir að hafa heillað fólk á Evrópumótinu eru þeir nú á leið til Rússlands og víst er að Argentínumenn og Króatar fagna því ekki að þurfa að skylmast við Íslendingana. Það verður erfitt fyrir okkur og beinlínis hættulegt heilsu okkar að fylgjast með HM án þátttöku ítalska liðsins. Eina lækningin fyrir okkur hjá Gazzetta er að ættleiða íslenska liðið í bláu búningunum og hvetja það áfram eins og það væri okkar eigið lið í bláu."

La Gazzetta dello Sport er full alvara með þessu því eftir tíu daga kemur blaðamaður frá blaðinu til Íslands. Hann mun dvelja hér í sex daga og skrifa greinar inn á vefinn blaðsins. Enn fremur mun blaðið birta ítarlegar greinar um land og þjóð í aðdraganda keppninnar. Greinarnar munu birtast tvisvar í viku í blaðinu og vefsíðu þess.