*

Sport & peningar 10. mars 2013

Íþróttabullur ekki svo ruglaðar eftir allt saman

Þeir sem eru tilbúnir að fórna lífi sínu fyrir liðið sitt í enska boltanum eru sennilega ekki svo galnir samkvæmt nýjustu rannsóknum.

Margir kannast sennilega við að ranghvolfa í sér augunum yfir einhverjum nákomnum sem gengur um með Chelsea/Liverpool/Manchester United (þessi upptalning á liðum gæti haldið áfram í allan dag) trefil og grætur annað hvort af gleði eða sorg eftir „mikilvægasta leik tímabilsins“. Hvernig er hægt að halda með einhverju liði í öðru landi og láta úrslitin hafa áhrif á sálarlífið? Gæti einhver spurt sig. 

En nú geta bullur allra landa glaðst og sagt makanum að róa sig því nýjustu rannsóknir sýna að þeir sem halda með íþróttaliði af öllum lífs og sálarkröftum eru ekki eins líklegir til að þjást af þunglyndi eða félagsfælni. The New York Times greinir frá þessu máli hér

Að fagna og æsa sig yfir leik hefur áhrif á hjartað, heilastarfsemina og brennslu og þeir sem upplifa slíkan hamagang reglulega verða síður þunglyndir og einmana. Og það sem meira er, þeir allra æstustu mælast með meira sjálfstraust en þeir sem halda ekki með neinu íþróttaliði.

Og að halda því fram að æsingurinn, oft á tíðum kenndur við bulluskap, sé vegna þess að verið sé að fylla upp í eitthvert tómarúm í sálinni er misskilningur samkvæmt þessum sömu rannsóknum.  

Þó er ekki er gott að útiloka allt nema íþróttina að sögn Susan Krauss Whitbourne professor í sálfræði í University of Massachusetts Amherst en hún segir að annars sé íþróttaáhuginn góður fyrir sálina og það að halda með einhverju liði þýði ekki að viðkomandi eigi sér ekki neitt líf sjálfur. 

Stikkorð: Þunglyndi  • Enski boltinn