*

Sport & peningar 28. mars 2020

Íþróttaþorstanum svalað

Viðskiptablaðið tók saman nokkrar íþróttamyndir og -þáttaraðir sem svalað geta íþróttaþorsta meðan þær liggja í COVID-19 dvala.

Sveinn Ólafur Melsted

Það hefur reynst mörgu íþróttaáhugafólki erfitt að geta ekki lengur horft á beinar útsendingar frá hinum ýmsu íþróttaviðburðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær hægt verður að hefja keppni á nýjan leik, en hér að neðan má finna nokkrar íþróttatengdar kvikmyndir og þáttaraðir sem stytt geta stundir þangað til. Nálgast má neðangreindar kvikmyndir og þætti inni á streymisveitunni Netflix.

Killer Inside: The Mind of Aaron Hernandez

Nú í byrjun árs kom út heimildaþáttaröð sem fjallar um fyrrverandi NFL stjörnuna Aaron Hernandez sem var fyrir um fimm árum dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð. Í þáttaröðinni er farið yfir lífsskeið Hernandez og reynt að festa fingur á hvað hafi orðið til þess að maður, sem virtist vera að lifa draum sinn, skyldi ákveða að myrða annan einstakling - enda afar sjaldgæft að íþróttamaður í hans stöðu fremji slíkan glæp. Um þremur árum áður en Hernandez var dæmdur í lífstíðarfangelsi lék hann lykilhlutverk í liði New England Patriots sem komst alla leið í leikinn um Ofurskálina árið 2012. Þá var hann trúlofaður æskuástinni sinni og eignuðust þau dóttur sama ár og hann tók þátt í þessum stærsta íþróttaviðburði Bandaríkjanna. Æviskeiði Hernandez lauk í apríl árið 2017 er hann tók eigið líf innan veggja fangelsins. Í þáttunum er m.a. rætt við vini hans og fyrrverandi samherja í gegnum tíðina.

Moneyball

Um er að ræða leikna sannsögulega íþróttamynd sem byggð er á bókinni Moneyball: The Art Of Winning an Unfair Game. Í myndinni stendur hafnaboltaþjálfarinn Billy Beane frammi fyrir stórri áskorun sem þjálfari hafnaboltaliðsins Oakland Athletics, en liðið hefur úr talsvert minni fjármunum að spila en flestir andstæðingar þess. Til að reyna að gera mikið úr litlu fer Billy, sem leikinn er af stórleikaranum Brad Pitt, ásamt samstarfsmanni sínum, Peter Brand, sem Jonah Hill leikur, að rýna ítarlega í tölfræðilegar upplýsingar til að finna falda gimsteina. Nú til dags eru mörg lið í hinum ýmsu íþróttagreinum farin að tileinka sér þessa aðferðafræði þeirra félaga og má því segja að þeir séu vissir frumkvöðlar innan íþróttaheimsins. Moneyball rataði í kvikmyndahús árið 2011 og óhætt er að segja að hún hafi slegið í gegn. Til marks um það var myndin tilnefnd til sex Óskarsverðlauna, meðal annars sem besta kvikmynd ársins, auk þess sem Brad Pitt var tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki og Jonah Hill sem besti leikari í aukahlutverki.

Sunderland 'Til I Die

Skylduáhorf fyrir alla knattspyrnuáhugamenn en einnig er vert að mæla með þessari þáttaröð fyrir þá sem hafa lítinn eða engan fótboltaáhuga. Í þáttunum er skyggnst á bak við tjöldin hjá enska knattspyrnuliðinu Sunderland frá samnefndri borg í Norður-Englandi tímabilið 2017-2018. Tímabilið áður féll liðið úr ensku úrvalsdeildinni og er stefnan sett á að komast strax aftur í deild þeirra bestu. Allt fer þó á versta veg og endar tímabilið svo að félagið fellur niður í þriðju efstu deild. Óhætt er að segja að stuðningsmenn félagsins séu ástríðufullir og í þáttunum er fylgst með lífi nokkurra stuðningsmanna liðsins, auk þess sem myndavélar fylgjast með flestöllu sem gerist innan veggja klúbbsins hjá leikmönnum, þjálfurum og öðrum starfsmönnum þess. Þá eru einnig sýndar myndir frá leikjum liðsins þetta martraðartímabil. Aðdáendur þáttanna geta beðið spenntir þar sem önnur þáttaröð þessara skemmtilegu þátta verður aðgengileg á Netflix í næsta mánuði, en þá verður tímabilið 2018-2019 í forgrunni. Þeir sem vita hvernig umrætt tímabil fór bíða eflaust spenntir.

Umfjöllunina má nálgast í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér