*

Menning & listir 8. júní 2013

Já ég fór og já, þetta var æði!

Það getur verið mjög flókið að geta ekki farið í leikhús.

lára Björg Björnsdóttir

Fátt þykir vandaðra og meira gefandi en vel heppnuð leikhúsferð. Því miður hefur meðfædd innilokunarkennd mín neitað mér um hlutdeild í þessari tilteknu tegund af alsælu.

Mér finnst óþægilegt að fara í leikhús því ég óttast að troðast undir og kafna ef það kviknar skyndilega í eða eitthvað. Ég þjáist líka af meðvirkni eða einhverjum álíka kvilla því ég á það til að stressast svo upp fyrir hönd leikaranna að ég er oft nálægt því að rífa armana af sætinu þegar einhver kveikir á kerti uppi á sviði (tekst það í fyrstu atrennu eða verður þetta vandræðalegt og eldspýturnar klárast og þarf að sækja kveikjara eða kviknar kannski bara í?).

Og hvað ef leikarinn þarf að vippa sér úr kápu eða frakka sem krækist óvart í einhverju helvítinu og dramatíska senan snýst öll allt í einu um árans flíkina en ekki eitthvað annað eins og grát eða gól? Ég fæ hausverk bara við að skrifa þetta.

Vegna þessara súru þátta í fari mínu fer ég ekki fet þegar hvert tímamótaverkið á fætur öðru er frumsýnt í leikhúsum okkar. Og eins og með flest allt hrikalegt og vont þá er það ekki félagslega samþykkt að segjast ekki fara í leikhús. Maður er sakaður um að vera Bruce Willis hnakki sem borðar beint upp úr KFC fötunni (hvað í fjandanum er að því, spyr kannski fólk sem skilur eitthvað, en svona er lífið í þessum hippaheimi) fyrir að fúlsa svona við menningarperlum þjóðarinnar sem æða framhjá manni eins og allsberir leikarar skoppandi um andlega rýmið á litla sviðinu í pytti heljar.

En já, þá að punktinum í þessu öllu hjá mér.

Vitiði hvað ég geri til að lenda ekki í hakkavél listagyðjunnar? Ég lýg, krakkar mínir. Ég lýg eins og vindur úr vindvél sem þýtur í gegnum tómið. Þegar enn eitt meistarastykkið fer á fjalirnar (sjáiði, ég kann að tala eins og þetta lið) þá les ég mér til um sýninguna, ég læri nöfnin á ljósafólkinu og miðasölustarfsmönnunum, les gagnrýni, sýningarskrár og æviágrip leikstjórans. Síðan mæti ég hress í kaffiboð og segi „já“ þegar ég er spurð hvort ég sé búin að sjá Mary Poppins eða Engla alheimsins.

Allir sáttir, enginn reiður og málið er dautt. 

Stikkorð: Leikhús  • Vandræði  • Kvalir  • Örvænting