*

Bílar 25. febrúar 2017

Jafnvígur á vegum sem vegleysum

Jeep Grand Cherokee er ríkulega búinn jeppi með háu og lágu drifi og skemmtilegri vél.

Guðjón Guðmundsson

Jeep Grand Cherokee var frumsýndur árið 1992 á bílasýningunni í Detroit. Hann átti stóran þátt í því að skilgreina þessa nýju gerð ökutækja sem átti eftir að taka heiminn með áhlaupi. Jeep er líka sennilega eina alþjóðlega vörumerkið sem hefur orðið að fullgildu orði í íslensku máli. Þaðan kemur orðið jeppi sem í daglegu tali er notað yfir þessa gerð bíla.

Útlitsbreytingar á Grand Cherokee í gegnum tíðina hafa verið hófsamar. Fjórða kynslóðin kom á markað 2010 og, eins og fyrri kynslóðir, er bíllinn með sambyggða grind og yfirbyggingu en ólíkt fyrri kynslóðum kom hann með sjálfstæðri fjöðrun á hverju hjóli sem bætti mjög aksturseiginleikana.

Jeep seldist ágætlega hérlendis þegar merkið hafði heimilisfesti hjá Jöfri og seinna meir Ræsi. Svo varð merkið munaðarlaust þar til Fiat Group, sem er eigandi Jeep, valdi fyrirtækið Ísband sem umboðsaðila fyrir bíla samsteypunnar, þar á meðal Jeep.

Meira en borgarjeppi

Það var með nokkurri eftirvæntingu að rifjuð voru upp gömul kynni af Grand Cherokee. Bíllinn var sóttur í sýningarsal Ísband í Mosfellsbæ og stóð hann þar í nokkrum útfærslum, þ.e. Laredo, Limited, Overland og Summit. Þetta er laglega hannaður bíll með fínlegar framlugtir með LED dagljósum en kraftalegu heildaryfirbragði eins og sæmir borgarjeppa. En Grand Cherokee er eiginlega dálítið meira en borgarjeppi. Hann hefur flest það til að bera til að keppa við borgarjeppa eins og VW Touareq, BMW X5 eða Land Rover Discovery, svo dæmi séu tekin. En hann er líka á heimavelli í torfærum, búinn háu og lágu drifi og loftpúðafjöðrun í þeim gerðum sem boðnar eru hérlendis.

Þannig leikur Grand Cherokee á tveimur sviðum. Við fengum til prófunar Overland útfærsluna sem er ríkulega búinn bíll. Vélin er 3.0, V6 sem brennir dísil og  er sögð eyða 7 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. Þetta er feikn skemmtileg vél með 250 hestafla afkastagetu og tog upp á 569 Nm sem ætti að duga flestum húsvagna- og bátaeigendum landsins. Í upptöku er dálítið hik en eftir það er hröðunin áþreifanleg og átta þrepa sjálfskiptingin stuðlar að minni eyðslu með því að viðhalda kjörsnúningi á vél. Eyðslutölvan sýndi þó ekki 7 lítra að jafnaði í borgarakstri þegar bílnum var skilað heldur 9,6 lítra, sem er auðvitað mikið nær veruleikanum þegar tekið er mið af stærð og þyngd bíls.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.