*

Bílar 5. mars 2019

Jaguar I-Pace bíll ársins

I-Pace, fyrsti rafbíll Jaguar, var valinn bíll ársins á bílasýningunni Genf sem stendur yfir um þessar mundir.

Nýi rafbíllinn Jaguar I-Pace var valinn Bíll ársins í Evrópu eftir gríaðrlega harða keppni við sportbílinn Alpine A110. Valið fór fram við upphaf bílasýningarinnar í Genf sem nú er að hefjast.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir breska lúxusbílamerkið sem bindur miklar vonir við I-Pace sem er fyrsti rafbíll Jaguar. Þetta er í þriðja skipti sem Jaguar kemst í toppslaginn um bíl ársins en fyrirtækið hefur aldrei unnið áður. Franska bílamerkið Alpine var í frysta skipti í úrslitum um bíl ársins í Evrópu.

Breski lúxusbílinn og franski sportbílinn hlutu báðir jafnmörg stig, alls 250 en Jaguar hlaut titilinn þar sem fleiri dómarar eða 18 settu hann í efsta sætið en 16 höfðu valið Alpine. Kia Ceed varð í þriðja sæti í valinu með 247 stig og Ford Focus í fjórða með 235 stig.

Aðrið bílar sem komust í úrslitin voru Peugeot 508, Citroen C5 Aircross og Mercedes-Benz A-Class. 58 bílablaðamenn frá 22 Evrópulöndum voru í dómnefnd.

Stikkorð: Jaguar