*

Bílar 23. ágúst 2017

Jaguar kynnir E-Pace í Frankfurt

Jaguar mun kynna nýjan sportjeppa á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði.

Breski bílaframleiðandinn Jaguar mun kynna nýjan sportjeppa E-Pace á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði. E-Pace er aðeins minni en hinn stæðilegi F-Pace sem kom á markað hér á landi í byrjun árs.

Jaguar ættarsvipurinn er greinilegur á E-Pace en þessi nýi sportjeppi líkist að mörgu leyti stóra bróður. E-Pace kemur vel búinn með dísil- og bensínvélum. Þótt hann sé styttri en stóri bróðir þá er hann með 577 lítra farangursrými og fínt pláss fyrir fimm farþega.

Undir húddinu verður fínt afl hvort sem er í dísil- eða bensínútfærslum. Dísilvélarnar skila 148 til 237 hestöflum og bensínvélarnar 247 til 296 hestöflum. Með stærri bensínvélinni verður bíllinn mjög aflmikill og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 6,1 sekúndu. Útfærslan með minnstu dísilvélinni veðrur í boði með framhjóladrifi sem Jaguar hefur ekki boðið áður. 

Meira er af áli í yfirbyggingu E-Pace sem gerir hann léttari. Jaguar hyggst síðan koma með I-Pace rafbílinn fram á sjónarsviðið í kjölfarið en sá er einnig sportjeppi. Verður það fyrsti rafbíllinn í sögu Jaguar.