*

Bílar 1. apríl 2017

Jaguar mættur til leiks

Bílaumboðið BL hefur nú formlega bætt við sig lúxusmerkinu Jaguar í flóru fyrirtækisins. Af því tilefni voru þrír nýir bílar úr línu Jaguar prófaðir á Suðurnesjum nýverið.

Róbert Róbertsson

Jaguar F-Pace er fyrsti jeppinn frá Jaguar. Þetta er hörkuskemmtilegur bíll sem býður upp á flotta aksturseiginleika. Það vantar ekki aflið í þennan sportjeppa því þriggja lítra dísilvélin skilar honum alls 300 hestöflum og alls 700 Nm í togi. Hann er aðeins 6,2 sekúndur í hundraðið sem er ansi vel gert fyrir þetta stóran bíl. Hámarkshraðinn er uppgefinn 241 km. Þótt ekki hafi verið farið svo geyst var reynt talsvert á sportjeppann á Suðurnesjum og fór hann létt með það.

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir og það sakar ekki að hafa þetta feikimikla afl. F-Pace er fallega hannaður og sama má segja um fólksbílanna XE og XF. Jaguar hefur svo sem aldrei verið þekkt fyrir neitt annað en fagurfræði þegar kemur að útliti bíla. Hönnunin er lagleg í innanrýminu og þar talsverður lúxus sem innanborðs.

Eyðslan er skráð 6 lítrar á hundraðið miðað við þessa vél. Jaguar hefur náð að minnka eldsneytiseyðsluna á F-Pace með því að nota meira magn af áli við smíði hans. Þyngd þessa stóra bíls er rétt rúmlega 1.600 kíló sem er ansi vel af sér vikið. F-Pace er þannig talsvert léttari en helstu keppinautar hans frá Audi, BMW, Mercedes-Benz og Porsche. Í aksturseiginleikum gefur Jaguar F-Pace þeim þýsku ekkert eftir.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.  

Stikkorð: Jaguar