*

Bílar 1. mars 2013

Jaguar stefnir hátt með F-Type

Sá orðrómur hefur lekið út hjá Jaguar að hugmyndin sé að vera með felgur í bresku fánalitunum og loftventla í stíl.

Róbert Róbertsson

Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir ofursportbílnum Jagúar F-Type í talsverðan tíma og loksins hefur breski lúxusbílaframleiðandinn gefið út fréttir þess efnis að sportarinn komu á markað í maí á þessu ári.

Þegar hafa um 1.400 manns höfðu borgað staðfestingargjald á röskri viku eftir að sagt var frá honum sl. haust. Bíllinn á að marka upphaf nýrrar framleiðslusóknar Jagúars sem boðar ný módel á næstu árum í hinum ýmsu bílaflokkum.

„Við ætlum með þessum bíl að hefja Jagúarmerkið aftur til vegs og virðingar,“ segir Jeremy Hicks, forstjóri Jagúar Land Rover.

„Í þessum bíl felst mikil yfirlýsing og hann færir okkur aftur til uppruna okkar, sportbílanna.“

Bíllinn verður mjög laglegur ef marka má myndir. Mikið er í hann lagt eins og búast má við frá bílaframleiðandanum. Vélaraflið og akstursgetan verður án efa í fínu standi enda erum við að tala um Jaguar.

Nýi sportbíllinn verður fáanlegur með V6 og V8 vélum og í þremur vélarstærðum. Sú minnsta verður 3,0 lítra með 335 hestafla vél, síðan kemur 375 hestafla S-gerð en kraftmesta gerðin verður 488 hestafla V8 sem kosta mun tæpar 20 milljónir króna. Sá orðrómur hefur lekið út hjá Jaguar að hugmyndin sé að vera með felgur í bresku fánalitunum og loftventla í stíl. Það kemur í ljós þegar vorar hvort þetta verður raunin. 

Stikkorð: Jaguar  • Jaguar F type