*

Bílar 4. desember 2014

James Bond keyrir Aston Martin og Fiat 500

Nýja James Bond kvikmyndin verður frumsýnd eftir tæpt ár en í henni mun kappinn meðal annars aka um á smábíl frá Fiat.

Kunngjört var í dag að nýjasta James Bond myndin mun heita Spectre. Þá er orðið ljóst að James Bond, leikinn af Daniel Craig, muni aka um á nýjum Aston Martin í myndinni. Sá ber nafnið DB10 og líklegt að hann verði arftaki DB9 bílsins.

Breski lúxusbílaframleiðandinn hefur uppi áform um að smíða einungis 10 eintök af bílnum. Þau verða smíðuð af sérstakri deild innan Aston Martin sem ber heitið Q eins og hinn eini sanni tækjabrellumeistari bresku leyniþjónustunnar í Bond-myndunum.

James Bond mun einnig aka Fiat 500 í myndinni, sem gerist í Rómaborg. Nýja myndin verður frumsýnd í október á næsta ári. Austurríski stórleikarinn Christoph Waltz verður í hlutverki illmennisins Oberhauser, en margir muna eftir honum sem Nasistaforingja í myndinni Inglorious Basterds.

Bond stúlkurnar verða að vanda þokkafullar en hlutverk þeirra eru í höndum Léu Seydoux og Monicu Bellucci, sem er líklega frægasta leikkona Ítala á eftir Sophiu Loren.