
Svo ekki sé talað um vitleysisganginn sem hrúgast þangað inn þegar fólk slysast til að eiga afmæli. Var farið of geyst á einhverri rýmingar- eða lagersölunni þarna um árið? Þarf ekki að taka aðeins til í ruslakistunni sem eitt sinn kallaðist heimili?
Þar sem janúar hefur tilhneigingu til að vera daufur, dapur og dull er kjörið tilefni til að breyta honum í mánuð aðgerða. Gerum janúar að mánuði hörku, skipulags og tiltektar, mánuði sem breytir lífi okkar allra til hins miklu miklu betra.
Hvaða eldhústæki hefur enginn snert á í áraraðir? Er kominn tími á brauðvélina? Rafmagnspiparkvörnina? Kívískrælarann? Þessir hlutir eru raftæki djöfulsins, hönnuð til þess eins að taka pláss, bila og pirra lifrina úr eigandanum. Út í Sorpu með þetta.
Er fatið með útskorna fiskinum hætt að vera kósí og vingjarnlegt? Er afríska viðarandlitið búið að stara á þig í fleiri ár en getur talist eðlilegt? Eru skærgulu útileguglösin á fæti, sem aldrei voru notuð en fengust á spottprís ef keypt voru þrjátíu saman, farin að valda þér ofbirtu í augun í hvert sinn sem þú opnar skápinn undir vaskinum? Ruslaðu þessu út í tunnu og ekki líta til baka.
Farðu út í garð og rífðu upp ljótar plöntur. Syngdu hátt á meðan þú djöflast. Kannski ærast erfiðu nágrannarnir (þessir sem eru alltaf með partí eða þessir sem horfa inn um gluggana hjá þér) og flytja út. Tvær flugur í einu höggi þarna, krakkar mínir.
Og garður er ekki bara gróðrarstía ljótra plantna sem enginn elskar. Hann getur, rétt eins og heimilið sjálft, hæglega breyst í lítinn ljótan gjafasyndasandkassa ef fólk á smekklausa ættingja og vini. Það er eins og sumir megi ekki sjá sína nánustu úti í garði með hrífu og þá er búið að kaupa gosbrunna, styttur, álfa eða hús, oft úr frauðplasti, í allar jólagjafir út lífið. Þessir hlutir eru einmitt óvinir garða en allt of algengar gjafir. Í réttlátum heimi mættir þú kveikja bál og brenna þetta á afmælisdegi þínum en ætli það sé ekki vissara að dömpa draslinu út í Sorpu.