*

Tölvur & tækni 21. júlí 2014

JBL Pulse: Flottur í útileguna

JBL er bæði hátalari og diskóljós og kemur sterkur inn í mannfögnuði.

Jóhannes Stefánsson

Eins og öllum ætti að vera orðið kunnugt hefur verið mikil og hröð tækniþróun í hátölurum, líkt og á öðrum sviðum. Eitt helsta einkenni tækniþróunar í raftækjum er að nú má oft fá litlar græjur sem skila svipuðum afköstum og miklu stærri græjur þurfti til áður. Það er þó ekki þar með sagt að alltaf takist vel til þegar reynt er að láta stórar græjur passa í litlar umbúðir.

Pulse hátalarinn frá JBL er hinsvegar nokkuð gott dæmi um þegar vel tekst til. Pulse er mjög lítill, nokkurn veginn á stærð við hálfs líters dós. Það er einmitt auðvelt að ímynda sér hátalarann innan um nokkrar slíkar með útilegustóla allt í kring.

Hæsti styrkur óþægilega hár

Eins og tíðkast í dag gengur hátalarinn með öllum tækjum sem geta tengst með bluetooth. Uppsetningin er því afar einföld og ætti að vera á allra færi. Það þarf því engar snúrur með hátalaranum nema þegar hann er í hleðslu sem gerir hann stílhreinni en ella. Þegar hátalarinn var stilltur á hæsta styrk á skrifstofu Viðskiptablaðsins var erfitt að eiga orðaskipti því hljóðstyrkurinn var svo mikill. Samkvæmt framleiðandanum er hæsti mögulegi hljóðstyrkur 86 desibel.

Hljómgæðin eru líka nokkuð góð miðað við stærðina. Í aðstæðum þar sem hátalarinn fær að fljóta með, eins og til dæmis í útilegum, er varla hægt að kvarta. Hann hentar sérstaklega vel til að spila popptónlist sem er ekki of bassarík eða fíngerð. JBL Pulse ætti að henta mjög vel við flestar aðstæður þar sem hægt er að ímynda sér að hann sé á annað borð gripinn með.

Að þessu sögðu myndu hörðustu tónlistarunnendur og menn með hljómgæðablæti alls ekki sætta sig við að skipta fínu græjunum út fyrir Pulse. Bassinn mætti til dæmis vera þéttari. Þetta kemur sérstaklega í ljós þegar spilað er á miklum hljóðstyrk eða þegar Pulse og hefðbundnar heimilisgræjur í ágætum gæðaflokki eru borin saman.

Að sama skapi getur verið erfitt að greina léttustu blæbrigði í rólegri tónlist. Hátalarinn er þó sannarlega betri en ekkert þegar þar að kemur og spurning hversu kröfuharður er hægt að vera við hátalara sem er jafn stór og bjórdós.

JBL Pulse er ekki stór og fer vel í hendi

Diskóljósin veita forskotið

Það sem skilur Pulse frá öðrum litlum hátölurum eru innbyggð marglit díóðuljós sem hreyfast í takt við tónlistina. Ljósin má stilla á ýmsa vegu með appi í símanum eða með sérstökum takka á hátalaranum. Hann getur þannig verið sérstaklega skemmtilegur í partýið eða sumarbústaðinn. Flogaveikir og aðrir sem kæra sig ekki um bullandi diskóljós öllum stundum þurfa þó ekki að örvænta því auðvelt er að slökkva á ljósunum með einum takka.

Rafhlöðuending hátalarans eru 10 klukkustundir án ljósanna en 5 klukkustundir með ljósin kveikt, en hann má hlaða í gegnum USB tengi eða með hleðslutæki sem fylgir með.

JBL Pulse kostar tæpar 40 þúsund krónur og fæst í Tölvulistanum. Það má þó spyrja hvort verðið sé ekki nokkuð ríflegt fyrir græjuna. Það má leiða líkur að því að ljósin ýti verðinu nokkuð upp og ef til vill er hægt að fá hátalara sem eru betri að gæðum í sama verðflokki, þó að þeir séu auðvitað ekki með innbyggða ljósasýningu. Með Pulse í töskunni ertu klár í útileguna, að því gefnu að það viðri einhverntímann til þess.

Í hnotskurn: JBL hátalarinn er mjög flottur í útileguna og partýið og lítur virkilega snyrtilega út. Hljóðstyrkurinn ætti að duga allstaðar nema í keppni við þotuhreyfil þó að hljómgæðin séu ekki að fara að veita neinum fiðring.

Jóhannes er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Tækni  • Hátalari  • JBL Pulse