*

Bílar 29. mars 2020

Jepplingaóð þjóð

Bíll ársins í Evrópu. Peugeot 208. Hefðbundinn í formi; fernra dyra, lítill fólksbíll. Spennandi? Eitthvað fyrir Íslendinga?

Guðjón Guðmundsson

Fáir evrópskir bílaframleiðendur hafa vakið jafnmikla athygli undanfarin misseri og einmitt Peugeot, franska fyrirtækið sem var stofnað 1810 og framleiddi í fyrstu kaffikvarnir og reiðhjól. Frá fyrirtækinu hafa undanfarið komið sérlega vel heppnaðir bílar, eins og jepplingarnir 3008 og 5008 og nú síðast 2008, en líka fínn 5 dyra sedan, 508. Og nú 208 sem svo rækilega hefur slegið í gegn á meginlandinu. En er 208 virkilega svona yfirmáta gott ökutæki?

Formfegurð og fínir aksturseiginleikar

Í fyrsta lagi þá er 208, eins og nýjustu gerðir í framleiðslulínu Peugeot, fallegur bíll. Strax að því sögðu skal minnast þess að fegurðin býr í auga þess sem horfir. Í annan stað býr 208 yfir alveg týpískum Peugeot aksturseiginleikum sem einkennast af vegtengingu, næmri stýringu og fjöðrunarkerfi sem virkar.

Þrátt fyrir formfegurð, fína aksturseiginleika og samkeppnishæft verð, verður 208 sennilega aldrei metsöluvara hér á landi, frekar en hinn frábæri akstursbíll 508. Hví? Vegna þess að Íslendingar eru jepplingaóð þjóð. Hefðbundnir fernra eða fimm dyra sedan bílar, hlaðbakar eða langbakar, hvað þá þrennra dyra hlaðbakar seljast víst mjög hægt.

Þess vegna er líklegra og raunar staðreynd að 2008 jepplingurinn selst mun hraðar en 208. Þessi algjöra kúvending úr hefðbundnu byggingarlagi yfir í jepplingalag sem hefur gerst á síðustu árum er kannski ein birtingarmynd íslenskra aðstæðna og auðvitað veðurfarsaðstæðna því bílar með jepplingalagi eru með hærri veghæð og meiri akstursgetu í þungri færð, jafnvel þótt þeir séu einungis framhjóladrifnir.

Tvær aflrásir í boði

Peugeot 208 fæst hjá umboðinu með tvenns konar aflrásum; annars vegar lítilli bensínvél, þriggja strokka með 1,2 lítra slagrými; 75, 100 og 130 hestafla með sex gíra beinskiptingu eða 8 þrepa sjálfskiptingu, og hins vegar rafknúinn með 50 kWklst rafgeymi sem býður upp á 340 km drægni, samkvæmt nýju WLTP mælingunni, sem þykir endurspegla raunveruleikann betur en fyrri mælingar. Fyrst var tekið í bensínbílinn með 6 gíra beinskiptingunni. Ekki gafst langur tíma til að kynnast honum né heldur rafgripnum, raunar einungis brot úr degi.Markast öll bílaumfjöllun óhjákvæmilega af því.

Þeir sem skrifa um bíla í íslenska miðla þurfa yfirleitt að reiða sig á einkaumboð, sem fæst  hafa marga prófunargripi til að spila úr, og sum takmarkaðan skilning á því að umfjallanir þurfi að byggja á því að umgangast bíla, ekki bara því að taka sem snöggvast í þá. Á þessu eru þó sannarlega mjög fínar undantekningar.

208 er ekki stór bíll með sína rúmlega fjögurra metra lengd. Stærðarlega fellur hann í flokk með bílum eins og Toyota Yaris, Renault Clio, Hyundai i20 og Kia Rio, svo fáeinir séu nefndir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér