*

Menning & listir 10. maí 2012

Jessica Simpson fær milljónir fyrir megrunina

Megrunarfyrirtækið Weight Watchers er tilbúið að greiða henni háar fjárhæðir fyrir að losa sig við aukakílóin.

Bandaríska leikkonan Jessica Simpson hefur skrifað undir samning við megrunarfyrirtækið Weight Watchers, sem felur í sér að hún fær greiddar þrjár til fjórar milljónir dala, andvirði 375-500 milljóna króna, ef henni tekst að losa sig við þau þrjátíu kíló sem hún bætti á sig á meðgöngunni. Jessica eignaðist dóttur þann fyrsta maí síðastliðinn.

Weight Watchers hefur lengi nýtt sér krafta Hollywood-leikara og annars frægs fólks til að auglýsa vörur sínar og þjónustu. Má sem dæmi nefna sjónvarpsmanninn og fyrrverandi körfuboltahetjuna Charles Barkley, sem hefur tekið á sig sambærilegar raunir og Jessica fyrir Weight Watchers. Ekki er vitað hvað hann fær fyrir „Lose Like a Man“ herferðina, en sérfróðir giska á að launin séu í kringum þrjár milljónir dala.