*

Matur og vín 15. nóvember 2018

Jólabjórinn kominn í sölu

Tegundirnar af jólabjór fyrir þessi jólin eru á sjöunda tug og fleiri en dagarnir sem jólabjórinn er í sölu í vínbúðunum.

Jólabjórinn kemur í sölu í vínbúðum ÁTVR í dag, 15. nóvember, og hefur úrvalið aldrei verið meira. Tegundirnar af jólabjór fyrir þessi jólin eru á sjöunda tug og fleiri en dagarnir sem jólabjórinn er í sölu í vínbúðunum. Því mun ekki duga að drekka nýja bjórtegund á hverjum degi yfir hið almenna sölutímabil, ætli einhver sér að komast yfir allt úrvalið. Nöfn jólabjóranna eru fjölbreytt, líkt og undanfarin ár, enda er úrvalið það mikið að beita þarf öllum brögðum til að ná athygli bjórunnenda.

Þetta árið verður tegundum á borð við Fagnaðarerindinu II, Hvítum jólum, Jólakisu, Snjókarli, Skyrjarmi og Röndólfi raðað í hillur ríkisverslananna í fyrsta sinn. 757 þúsund lítrar af jólabjór seldust um síðustu jól, sem er álíka magn og undanfarin ár, en það samsvarar tæplega þremur lítrum á hvern Íslending á áfengiskaupaaldri, eða tæplega níu 330 ml jólabjórum. Hér eru því nokkrar tegundir fyrir þá sem vilja ná landsmeðaltalinu og komast í leiðinni yfir brot af úrvalinu.

  • Skyrjarmur er jólabjór ársins frá Borg Brugghúsi. Bjórinn er 4,3% blueberry sour, gegnsýrður af skyri og bláberjum. Þá koma jólasveinarnir Askasleikir, Giljagaur og Hurðaskellir einnig aftur frá Borg til byggða fyrir jólin.
  • Tuttugasti og fjórði er 10% barley wine, sem hefur líkt og Heims um bjór komið frá Ölvisholti fyrir undanfarin jól.
  • Brugghúsið Segull 67 á Siglufirði, er með yngri brugghúsum landsins. Fyrir þessi jólin hefur Segull 67 bæði bruggað 5,4% Segul 67 Jóla Bjór og 4,6% Segul 67 Snjókarl.
  • Hvít jól frá Víking brugghúsi, er 5% white ale með mandarínukeim, en „white ale“ er stíll sem notið hefur nokkra vinsælda hér á landi undanfarin ár. 
  • Rúdolf er 4,8% heslihnetubrúnöl með karamellu-og kaffitónunum og kemur einnig frá Víking.
  • Einstök Winter Ale er 8%, er margslunginn bjór frá Einstök með mjúkt bragð en í því má finna karamellu, greni og malt.
  • Jólakaldi frá brugghúsinu Kalda á Árskógssandi hefur verið vinsælasti jólabjórinn í flösku undanfarin ár. Fyrir þá sem vilja fá sér jólabjór en geta keyrt heim er hægt að finna léttöls útgáfu af Jólakalda í matvöruverslunum. Kaldi gefur einnig út súkkulaði porter jólabjór undanfarin ár.
  • Jólabjórarnir Almáttugur og Blessaður koma frá Steðja í Borgarbyggð. Almáttugur er 6% ósíað Porter öl, bruggað með lakkrís frá Góu en Blessaður er ósíað red ale, bruggaður með engiferrót.