*

Tölvur & tækni 25. nóvember 2015

Jólagjafir fyrir tækniáhugamanninn

Meðal gjafa sem mælt er með má nefna snjallúr, sýndarveruleikagleraugu, kúluvélmenni og rafbók.

Dagblaðið bandaríska Wall Street Journal tók saman bestu tæknitengdu jólagjafirnar í ár. Meðal þeirra má nefna snjallúr, fjarstýrðan dróna, kúluvélmenni og rafbók.

Apple TV

Tæknirisinn Apple hyggst umbylta því hvernig heimurinn horfir á sjónvarp með nýja sjónvarpsviðaukatækinu Apple TV. Hingað til hefur græjan aðeins haft sértilgreind og valin forrit sem Apple hefur handstýrt í samvinnu við miðla og efnisveitur.

Fjarstýring sjónvarpsins hefur verið endurbætt, en nú geturðu leitað með hjálp Siri - raddvélmennis Apple sem flestir þekkja gegnum iPhone. Einnig er hægt að spila tölvuleiki gegnum hið nýja Apple TV. Tækið kostar í kringum 20 þúsund krónur.

Kindle Paperwhite

Rafbókin vinsæla Kindle Paperwhite frá Amazon er með þeim betri á rafbókamarkaðnum. Hún er ódýr og býður upp á geymslupláss fyrir þúsundir bóka. Hægt er að stilla mjúka baklýsinguna af og á eftir þörfum. Kindle notast við svokallað rafblek, sem er betra fyrir augun til langs tíma en að lesa af spjaldtölvu á borð við iPad. Græjan kostar aðeins um 13 þúsund krónur.

Kindle Paperwhite er með góða upplausn, og er létt og meðbærileg. Hægt er að kaupa rafbækur þráðlaust gegnum Amazon, sem er talsvert ódýrara en að kaupa pappírsbók. Tækið státar sig af átta vikna rafhlöðuendingu. Paperwhite er þar að auki mikið betra til lesturs en spjaldtölva - engar tölvupósts- eða samfélagsmiðlatilkynningar geta truflað einbeitinguna þína.

Samsung Gear VR Oculus

Samsung Gear VR eru ódýr sýndarveruleikagleraugu fyrir eigendur Samsung snjallsíma. Mikill uppgangur er á sýndarveruleikatækni þessi misseri, en eftir að Facebook keypti fyrirtækið Oculus hafa vinsældir tækninnar færst í aukana. Eigirðu Gear VR geturðu spilað nýjan leik CCP, Gunjack, sem Mark Zuckerberg prófaði um daginn.

Maður setur einfaldlega á sig gleraugun og leyfir sér að líða inn í annan heim, hvort sem það er fantasía eða vísindaskáldskapur sem heillar. Helsti gallinn við tækið er að notandinn þarf að eiga nýlegan og kraftmikinn Samsung síma á borð við Galaxy S6 til að geta notað það. 

Sphero BB-8 Star Wars Droid

Í desember kemur út fyrsta Star Wars kvikmyndin í 10 ár. Hún hefur þegar selt miða í forsölu fyrir 6,5 milljarða króna sem er met. Viðskiptablaðið fjallaði um það áður. Litla vélmennið BB-8 er ný sögupersóna í kvikmyndinni, en það tekur eflaust við af R2-D2. Það rúllar um og þú getur stýrt því gegnum snjallsímaforrit.

Krúttlega vélmenniskúlan rúllar um heimili þitt með hausinn áfastan gegnum segulmagn. Þú getur svo látið hana rúlla í sjálfstýringarstillingu, og þá kútveltist BB-8 um heimili þitt hjálparlaust. Leikfangið er heilmikil skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Það kostar einhverjar 20 þúsund krónur.

Moment iPhone linsa og hulstur

Allir bestu Instagram-notendurnir eru með góða aukalinsu fyrir snjallsímann sinn. Þegar WSJ prófaði nokkrar tegundir stóð Moment linsan upp úr sem sú besta. Vandræðagangur var þó að festa linsuna á símann sjálfan.

Til að leysa úr þessu var Moment hulstrið hannað. Það verndar símann þinn og gerir þér jafnframt kleift að taka myndir í meiri upplausn með þægilegri leið til að smella linsunni á og af myndavélinni. Hulstrið sjálft kostar í kringum 9 þúsund krónur, meðan ein linsa selst á 13 þúsund.

Apple Watch Sport

Snjallúrið frá Apple hentar vel fyrir fólk sem hreyfir sig mikið. Sport-útgáfan af Apple Watch er með endingargóðri gúmmíól, og það telur kaloríurnar þínar út allan daginn og skráir skrefafjölda. Auk þess er hárnákvæmur hjartsláttarmælir byggður inn í úrið. Notandinn getur svarað í símann og fjarstýrt myndavél iPhone-snjallsíma síns gegnum úrið.

Það eru ótal forritlingar fyrir iPhone sem bjóða upp á Apple Watch útgáfu að sama sinni. Til að mynda má nefna Instagram, Google Maps, Evernote, Facebook Messenger, Twitter og Slack. Rafhlaða snjallúrsins er endingargóð, og hleðst hratt. Helsti gallinn við Apple Watch er verðið, en ódýrasta úrið kostar rúmlega 45 þúsund krónur.

Stikkorð: Jólagjafir  • Tölvur  • Tækni  • Græjur