*

Hitt og þetta 6. desember 2013

Jólagjöf handa yfirmanninum

Jólaglaðningur handa yfirmanninum er í raun alveg einstakt tækifæri til að sýna honum/henni hvað í þér býr svona í eitt skipti fyrir öll.

Lára Björg Björnsdóttir

Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að gleðja yfirmanninn um jólin. Þetta er einnig tilvalin leið til að koma dulbúnum skilaboðum til hans eða hennar um ágæti þitt. Skoðum nokkur dæmi um eiginleika þína sem þú getur undirstrikað með einföldum jólaglaðningi:

Áhugi á öðrum 

Gefðu yfirmanninum eitthvað sem tengist áhugamáli hennar. Hefur hún áhuga á íslenska fjárhundinum? Gefðu henni þá lítinn hvolp! Þetta er stórsniðugt því á næstu afmælum, jólum, páskum og á 17. júní má nota tækifærið og gefa litla dýrinu alls konar djönk eins og gúmmíbein, hringlur, hundaföt, kodda og hundakofa.

Nákvæmni

Ef þú vilt sýna yfirmanninum hvað þú ert nákvæm(ur), vandvirk(ur) og natin(n) er fátt betra en góður krosssaumur. Stingdu út fallega mynd af raðhúsinu hans í Seljahverfi. Hafðu öll smáatriði með eins og bílinn í innkeyrslunni, útiljósið sem vantar peru í og yfirmanninn sjálfan úti á tröppum að vinka eða klóra sér. Þetta má ramma inn ef þú vilt vera grand á því.

Eftirtektarsemi

Sýndu það í verki að ekkert fer framhjá þér og að þú manst allt sem er auðvitað frábær eiginleiki hjá starfsmanni. Ef yfirmaðurinn sagðist elska hljómsveitina Shadows á stóra grilldeginum í sumar skaltu gefa honum tvöfaldan Shadows geisladisk með kveðjukorti þar sem þú teiknar blikkbroskall og skrifar „ég man allt”. Þegar laktósumræðan stóð sem hæst í fyrra þá minntist hann kannski á að hafa drukkið kókómjólk sem barn. Gefðu honum þá stuttermabol með kókómjólkurlógóinu og hafðu kveðjukort með þar sem þú skrifar „leyfðu barninu í þér að blómstra” og teiknaðu mynd af bleyju.

Stundvísi

Hér er gjöfin sem sýnir hvað þú ert stundvís. Þú mætir heim til hennar á aðfangadagskvöld á slaginu sex. Um leið og kirkjuklukkurnar hringja inn jólin skaltu hringja dyrabjöllunni í takt. Þegar hún kemur til dyra, alveg ótrúlega hissa en ánægð auðvitað, skaltu rétta henni gjöfina sem er ljósmyndabók. Í þessari bók eru myndir af úrinu þínu á hverjum einasta morgni þegar þú gengur inn á skrifstofuna, alltaf á slaginu níu. Þér verður pottþétt boðið inn og í mat.

Stikkorð: Gleði  • Gaman  • Jólaspól  • Yfirmaðurinn  • Skemmtilegt