*

Jólin 12. nóvember 2016

Jólin byrja í júní

Benedikt Ingi Grétarsson hefur rekið Jólagarðinn í Eyjafirði undanfarin 20 ár ásamt konu sinni. Hann segir Íslendinga, sem margir halda mikilli tryggð við staðinn, sína bestu viðskiptavini.

Ásdís Auðunsdóttir

Flestir kannast við Jólagarðinn í Eyjafirði og líta jafnvel á það sem órjúfanlegan part af ferðalagi norður á Akureyri að kíkja í heimsókn, hvort sem það er í júlí eða desember. Að sögn Benedikts Inga Grétarssonar, sem rekur staðinn ásamt konu sinni, Ragnheiði Hreiðarsdóttur, hefði hann aldrei trúað því að reksturinn myndi ná slíkum hæðum þegar þau opnuðu staðinn fyrir tuttugu árum.

Benedikt segir nóg að gera um þessar mundir en segir snjóleysið hins vegar alltaf hafa áhrif. „Snjórinn er náttúrlega töluverður partur af jólum Íslendinga og það sem af er þessum vetri hefur bara snjóað einn dag, en það dugði þó til þess að fólk fékk smá fiðring. Síðan róaðist aðsóknin aftur eftir að snjórinn fór, “segir hann og hlær.

Íslendingarnir bestu gestirnir

Þvert á það sem þekkist víðs vegar um landið um þessar mundir segir Benedikt Íslendinga vera sína bestu gesti. „Það hefur alltaf verið meira af Íslendingum sem hafa komið til okkar en útlendingar. Hlutfallið hefur ef til vill breyst þetta árið en ég hugsa að skiptingin síðustu árin hafi verið á þann veg að Íslendingar hafi verið um 70% þeirra sem heimsækja okkur. Síðan verða hins vegar uppákomur eins og blessaður fótboltinn síðasta sumar en þá hreyfði enginn Íslendingur sig og þá breyttist hlutfallið töluvert og við vorum með miklu fleiri erlenda gesti.“

Í vor voru tuttugu ár síðan þau hjónin hófu rekstur Jólagarðsins, en staðurinn var opnaður 1. maí árið 1996. Benedikt segir ekki hægt að bera saman reksturinn í dag við það sem áður var. „Þegar við byrjuðum gerðum við okkur aldrei vonir um að verða nokkurn tímann stödd þar sem við erum í dag. Fólkið sem hefur verið að heimsækja okkur hefur verið miklu tryggara okkur en maður hefði nokkurn tímann þorað að vona. Við erum að fá hér gesti ár eftir ár og fyrir svona lítið fyrirtæki eins og okkar þá skiptir það gríðarlega miklu máli. Við erum náttúrlega ekki verslun þar sem þú þarft að sækja mjólk eða kjöt og það skiptir okkur miklu máli að fólk hafi gaman af því sem við erum að gera og versli við okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Jólahandbókinni, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Jólagarðurinn