*

Matur og vín 8. mars 2013

Jón Eggert hjá Argentínu: Kúnnar djóka með hrossakjöt

Jón Eggert Víðisson hjá Argentínu steikhúsi segir viðskiptavini þeirra grínast mikið með kjöthneykslið.

Lára Björg Björnsdóttir

„Kúnnarnir eru mikið að grínast með þetta og spyrja hvort þeir séu í alvörunni að borða nautakjöt,” segir Jón Eggert Víðisson, vaktstjóri á Argentínu steikhúsi.  

Í ljósi fjölmargra frétta síðustu vikna um svik og pretti í kjötbransanum er ekki nema von að fólk vilji vita hvaða kjöt það er raunverulega að borða. 

Argentína steikhús er eitt elsta veitingahúsið í borginni sem enn er starfandi á sömu kennitölu og aðsóknin er mjög góð að sögn Jóns Eggerts en kúnnahópurinn breyttist mikið eftir hrun: „Við fáum alveg roslega mikið af útlendingum til okkar. Ég held að fólk geri sér ekki almennilega grein fyrir því hvað það er mikið af útlendingum sem sækja Ísland heim allan ársins hring.” 

Jón Eggert segir að fólk sem komi á Argentínu sé þó ekki hrætt í alvörunni um að það sé að borða eitthvað annað en það sem er auglýst á matseðlinum: „Við erum auðvitað með mikið nautakjöt á matseðlinum svo fólk hefur spurt í djókinu hvort hesturinn sé ekki örugglega geymdur handa staffinu,” segir Jón Eggert sem hefur líklega heyrt flestar útgáfur sem til eru af hrossakjötsgríni.