*

Menning & listir 18. september 2012

Jón Ólafsson í blóðugum átökum

Vatnsbóndinn Jón Ólafsson leikur lítið hlutverk með stórleikurum í bandarískri sjónvarpseríu. Serían er tilnefnd til Emmy-verðlauna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Ég er þarna skjálfandi á beinunum að taka mynd af manni sem gæti drepið mig,“ segir Jón Ólafsson í samtali við vb.is. Hann leikur lítið hlutverk ljósmyndara í bandarísku sjónvarpsseríunni Hatfields & McCoys. Þættirnir slógu í gegn þegar þeir voru frumsýndir í byrjun sumars, hafa fengið fína dóma og verið tilnefndir til 16 Emmy-verðlauna, þar á meðal fyrir leikstjórn. Verðlaunin verða afhent í Los Angeles á sunnudag. 

Mótleikarar Jóns voru langt í frá nýliðar en aðalhlutverkin voru í höndum Kevin Kostner, Bill Paxton, Tom Berenger og Powers Boothe. Leikstjóri þáttanna var Kevin Reynolds, sem þekktastur er fyrir kvikmyndirnar Waterworld og Robin Hood: Prince of Thieves. 

„Þetta er bara orðið hobbí hjá mér,“ segir Jón spurður um ástæðu þess að hann hafi tekið boði um að leika í þáttunum, sem teknir voru upp í Rúmeníu í fyrrahaust. Jón og Kevin Reynolds hafa reyndar verið vinir um árabil og hafa þeir lengi veitt saman hér á hverju ári. Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Reynolds leikstýrir Jóni en það gerði hann í þegar Jón lék prest í kvikmyndinni Tristan & Isolde árið 2006. Hann hefur sömuleiðis leikið lítil hlutverk í íslenskum kvikmyndum.

Blóðug fjölskyldudeila

Þættirnir eru aðeins þrír. Þeir voru sýndir í lok maí á kapalstöðinni History, sem áður hét History Channel, og var hver þeirra tvær klukkustundir. Þetta er fyrsta leikna þáttaröðin sem stöðin sýndi. Áður hafði hún framleitt þáttaröðina The Kennedys en sýndi hana ekki.

Þættirnir greina frá blóðugum erjum tveggja fjölskyldna sem stóðu yfir í þrjátíu ár á seinni hluta 19. aldar. Slík voru átökin að þau hafa fest rætur bæði í bandarískum sögubókum og illindi þeirra orðin að skilgreiningu í orðabókum. 

Stikkorð: Jón Ólafsson