*

Menning & listir 12. apríl 2019

Jónsson & Lemacks tilnefnd í One Show

Svokölluð endurmörkun Þjóðminjasafnsins, með skýrri tilvísun í menningararfinn, keppir til úrslita í New York.

Endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands, sem unnin var af Jónsson & Lemacks, keppir til úrslita í alþjóðlegu auglýsingaverðlaununum The One Show. Eru verðlaunin meðal virtustu auglýsinga- og hönnunarverðlauna í heimi og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins sem þekkja til að um sé að ræða eina af þremur stærstu hátíðum þessarar gerðar í heimi.

Um 20.000 tilnefningar berast ár hvert í keppnina frá um sextíu löndum. Í lok mars var greint frá því hvaða verkefni hefðu komist á svokallaðan úrvalslista (e. shortlist). Nú hafa dómnefndir valið af þeim lista þau verkefni sem munu annað hvort fá verðlaun eða viðurkenningu og endurmörkunin er í þeim hópi.

Verðlaun og viðurkenningar eru veitt á Hönnunarvikunni í New York í  byrjun maí og fá verðlaunahafar þá afhenta hina eftirsóttu Blýanta.

Endurmörkun Þjóðminjasafnsins markast af sterkum litum, með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. Hin nýja mörkun felur m.a. í sér nýtt fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar.

Ásýndin var unnin fyrir hönd Jónsson & Lemacks af Albert Muñoz, Sigurði Oddssyni, Svölu Hjörleifsdóttur og Þorleifi Gunnari Gíslasyni. Endurmörkunin hefur áður hlotið aðalverðlaun á FÍT verðlaunum Félags íslenskra teiknara og Lúður á Íslensku auglýsingaverðlaununum.

Menningararfurinn tengir þvert á landamæri

„Við erum afar ánægð með afar skapandi og trausta samvinnu við Jónsson og Lemacks og erum sannfærð um að árangurinn mun stuðla að  áhuga á safninu og þeirri tilfinningu að aðgengi að því sé gott og þar séu allir velkomnir,” segir Margrét Hallgrímsdóttir Þjóðminjavörður.

„Ný mörkun hefur sterka skýrskotun í menningararfinn og hefur djúpar rætur í sögu og mannlíf á Íslandi allt frá landnámi. Ný ásýnd er aðlaðandi fyrir gesti okkar, þau sem hér búa og þau sem okkur heimsækja enda menningararfurinn það sem tengir okkur öll þvert á hvers kyns landamæri. Það er okkur sönn ánægja að sjá að sú mikla vinna sem lögð var í verkefnið vekur athygli hér heima og erlendis.”

Agnar T. Lemacks, framkvæmdastjóri Jónsson & Lemacks segist skiljanlega vera mjög stolltur af sínu fólki. „Að komast svona langt í þessari keppni er einstakt afrek og ber það vott um það hversu hæfileikaríkt fólkið okkar er og hversu frábært samstarfið var við  stjórnendur Þjóðminjasafnsins, sem sýndu bæði kjark og framsýni í þessu verkefni,” segir Agnar.

„Í margtvístruðu miðlaumhverfi nútímans hefur aldrei verið mikilvægara að vanda til verka þegar vörumerki eru byggð upp svo markaðsstarfið tali einni skýrri röddu. Á endanum er vörumerkið verðmætasta eign hvers fyrirtækis og stofnunar ef vel er staðið að verki. Í dag sést vel hvaða félög sinntu áfram vörumerkja- og markaðsstarfi þegar á bjátaði fyrir tíu árum og uppskera vegna þess í dag.”