*

Ferðalög 3. júní 2013

Júní er besti tíminn til að fara í frí

Færri ferðamenn, ódýrari gisting og betra veður. Hér koma nokkrar ástæður fyrir því hvers vegna júní er besti mánuðurinn í sólarlöndum.

Júní er heppilegasti tíminn ef halda skal til sólarlanda samkvæmt grein á The Telegraph. Tíndar eru til ýmsar staðreyndir sem útskýra hvers vegna júní er betri ferðamánuður en júlí og ágúst. Lítum á nokkrar:

Minni hiti. Í júní er nógu heitt til að sitja í sólinni en ekki of heitt til að fara í göngutúra. Tekið er dæmi um hitann á Mæjorka en í júní er meðalhitinn 25 gráður á daginn og 17 gráður á kvöldin til samanburðar við 29 gráður á daginn og 20 gráður á kvöldin í ágúst.

Meiri birta. Það er bjartara í júní en í júlí og ágúst. Svo dagurinn er lengri á ströndinni og því verður meira úr fríinu.

Færra fólk. Það eru færri á ferðinni í júní svo þá eru meiri líkur á því að fá betri herbergi á hótelum og styttri bið eftir borði á veitingastöðum. Einnig er minna að gera á flugvöllum sem er alltaf gott.

Ódýrari gisting. Gisting getur í sumum tilfellum verið þriðjungi ódýrari í júní en júlí og ágúst. Tekið er dæmi um villu á Ítalíu. Vikuleiga kostar 1350 pund eða 252 þúsund krónur í júní en 2160 pund eða rúmar 403 þúsund krónur í júlí og ágúst. 

Að auki kemur fram að í ár sé útlitið dökkt fyrir Bretland þar sem langtímaspá gerir ráð fyrir rigningu mestallan júnímánuð.