*

Tölvur & tækni 20. júní 2014

JXD leikjaspjaldtölvan: Eftirherma 101

JXD leikjaspjaldtölvan ber þess augljós merki að vera ódýr eftirlíking af PS Vita og veldur frekar gremju en ánægju.

Jóhannes Stefánsson

Kínversk fyrirtæki eru fræg fyrir að gera eftirlíkingar af vinsælum raftækjum. Slíkar eftirlíkingar eru mjög misjafnar að gæðum. Leikjaspjaldtölvur eru þar ekki undantekning, en fyrirtækið JXD hefur gert eftirlíkingu af einni slíkri. Gripurinn sem Viðskiptablaðið fékk til umfjöllunar heitir hinu óþjála nafni JXD S5110B og er fimm tommu leikjatölva með Android 4.1 stýrikerfi sem minnir mjög á PS Vita leikjatölvuna frá Sony hvað útlit varðar. Tölvan er með ARM A9 Cortex 1.3GHz Dual Core örgjörva og 1GB DDR3 1066MHz vinnsluminni. Það ber þó mjög á milli tölvu kínverska framleiðandans annars vegar og hins japanska hinsvegar í gæðum þegar búið er að kveikja á græjunni.

Útlit og stjórntæki

Úr fjarlægð er varla hægt að greina að græjan er ekki úr smiðju Sony. Útlitið er mjög svipað og ef ekki væri fyrir merkingar sem gæfu til kynna að svo væri ekki mætti hæglega ruglast á tækjunum við fyrstu sýn.

Strax og tölvan er meðhöndluð verður hins vegar vart við eiginleika sem vilja oft hrjá eftirlíkingar af öðrum vörum. Takkarnir eru ýmist nokkuð stífir eða að þeir virðast veikbyggðir. Það má líkja tilfinningunni við meðhöndlun tölvunnar við það að koma inn í ódýran bíl, þar sem holur hljómur heyrist þegar bankað er í mælaborðið. Þá er hún hvorki „fislétt“ né „örþunn“ eins og seljandinn vill meina, en hún er þó ekki þung né sérstaklega stór í hendi.

Notkun

Það verður að segjast eins og er að undirritaður var nokkuð spenntur fyrir því að prófa gamla nostalgíuleiki á borð við Mega Man og Castlevania sem fylgdu með tækinu, enda var hætt við að upp myndu rifjast góðar minningur úr barnæsku. Þegar hér var komið við sögu voru fullyrðingar seljandans, sem lýsir tölvunni sem „stórglæsilegri leikjatölvu“, þó farnar að virðast nokkuð orðum auknar.

Það fyrsta sem blasti við þegar einn leikjanna sem fylgdi með tölvunni var opnaður voru villuskilaboð um að tölvan væri frosin. Þá var ekki annað í stöðunni en að prófa annan leik og varð gamli bílaleikurinn Automobili Lamborghini fyrir valinu. Við spilun kom mjög fljótt í ljós hversu óþægilegir takkarnir voru í hita leiksins og gafst undirritaður fljótt upp á bílaleiknum. Var þá spurt: „Are you sure exit emulator." Hér voru því komin fram nokkuð greinileg merki að 

Þegar hér var komið við sögu tók undirritaður eftir því að Monster Truck Madness sem kom út árið 1999 var settur upp á tölvunni. Þrátt fyrir að brösulega hafi gengið fram að þessu var ekki annað hægt en að gefa þessum yfirgengilega sterajeppaleik tækifæri. Það sama var hinsvegar uppi á teningnum hér. Takkarnir voru óþægilegir og í ljós kom að þeir virkuðu ekki til að virkja alla fídusa leiksins. Undirritaður keyrði því um með fullt skott af nítrói í jeppanum en enga leið til að nota það, því fjarstýringin studdi ekki allar skipanir leiksins. Sama vandamál kom upp í fleiri leikjum sem eyðilagði ánægjuna af því að prófa þessa gömlu leiki aftur.

Eftir um einn og hálfan tíma gafst blaðamaður upp á því að spila tölvuleiki á vélinni. Þá var rétt rúmur helmingur eftir á rafhlöðunni sem dugir að hámarki í þrjá tíma. Til samanburðar endist rafhlaða PSV á bilinu fjóra til sjö klukkutíma.

Mynd og hljóð

Hér var runnið upp fyrir blaðamanni að það var ekki hægt að ætlast til mikils af S5110B. Það átti þó eftir að koma í ljós að tölvan gat enn valdið vonbrigðum. Græjan er nefninlega með innbyggða myndavél og hátalara sem eru með „virtual surround sound.“ Gæði myndanna sem myndavélin skilaði af sér voru afar dapurleg, þrátt fyrir góð birtuskilyrði.

Eftir á að hyggja ætti það þó ekki að koma á óvart, enda myndavélin 0.3 megapixla. Til samanburðar er myndavél á Nokia Lumia 1520, sem Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í vikunni, 20 megapixla.

Við tölvuleikjaspilun var hljóðið ágætt, enda tæplega hægt að ætlast til mikils þegar 15 ára tölvuleikir eru spilaðir. Þegar kom að því að spila tónlist var hljóðið þó litlu skárra en myndirnar. Framleiðandinn hafði sett á minni tölvunnar eitt lag til að prófa hljómgæðin. Af einhverjum ástæðum var hljóðstyrkurinn svo lítill að lagið heyrðist varla inni á skrifstofu Viðskiptablaðsins. Það er kannski ágætt, því lagið sem um ræðir er „Show me the Meaning of Being Lonely“ með Backstreet Boys. Það var þó kannski nokkuð viðeigandi fyrir S5110B.

Í hnotskurn:

JXD S5110B hefði mögulega gengið upp fyrir fimm árum síðan en er ekki peninganna virði í dag. Mögulega myndu þolinmóðustu unnendur klassískra tölvuleikja nota hana. Undirritaður myndi hinsvegar sennilega ekki hafa þolinmæði til þess þó að hann fengi hana gefins.

Málfars- og stafsetningarvillur eru eitt höfuðeinkenna kínverskra eftirlíkinga.

Myndin var tekin með öll ljós kveikt.

Hér má sjá myndgæðin þegar aðdráttur linsunnar er notaður.

Af einhverjum ástæðum var þetta eina lagið sem framleiðandi S5110B ákvað að láta fylgja með gripnum.