*

Bílar 21. nóvember 2015

Kadjar stendur fyrir sínu

Kadjar er fyrsti meðalstóri jepplingurinn frá Renault og jafnframt svar bílaframleiðandans við vaxandi eftirspurn viðskiptavina.

Róbert Róbertsson

Segja má að Renault hafi sett Kadjar í framleiðslu í kjölfar góðs árangurs Renault Captur sem er aðeins minni og einungis framhjóladrifinn en hinn nýi Kadjar er í boði fjórhjóladrifinn.

Þrátt fyrir að fjórhjóladrifinn bíll frá franska bílaframleiðandanum hafi verið til um árabil undir nafninu Koleos náði hann aldrei vinsældum svo neinu næmi. Þannig að hinn nýi Kadjar var settur í framleiðslu og virðist mun líklegri til að ná árangri eins og litli bróðir Captur.

Nýr Renault Kadjar er um margt líkur þeim nýju bílum frá franska framleiðandanum sem kynntir hafa verið á undanförnum misserum.

Bíllinn ber greinilega franska ættarsvipinn og er laglega hannaður að innan sem utan. Að innan er hann nokkuð líkur Captur en bara rúmbetri enda stærri.

Ágætir aksturseiginleikar og afl

Reynsluakstursbíllinn var sjálfskiptur með 1,5 lítra dísilvél sem skilar 110 hestöflum. Renault Kadjar er eingöngu búinn dísilvélum sem eru annaðhvort 1,5 lítrar eða 1,6 lítrar og hægt er að fá hann bæði beinskiptan og sjálfskiptan, framhjóladrifinn og fjórhjóladrifinn.

Útfærslurnar eru raunar ansi margar eða alls átta þannig að ekki er hægt að segja annað en Renault reyni að koma til móts við sem flesta með þessum jepplingi. Reynsluakstursbíllinn var framhjóladrifinn í Dynamic útfærslu. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Renault  • Kadjar