*

Hitt og þetta 15. ágúst 2007

Kafbátar nýjustu leikföng auðmanna

Ef þú ert sérlega ríkur eru góðar líkur á að þú viljir eignast kafbát ef marka frétt bandarísku fréttastofunnar CNN. Að sögn fréttastofunnar hefur gætt vaxandi áhuga hjá auðmönnum að kaupa kafbáta enda sjálfsagt allir orðnir þreyttir á leikföngum eins og einkaþotum og lystisnekkjum.

Fréttastofan greinir frá því að allmargir auðmenn hafi haft samband við kafbátaframleiðandann US Submarines. Eru þar nefndir til sögunnar menn eins og James Cameron, sem þekktur var fyrir að skrifa og leikstýra Títanic, Paul Allen, einn af stofnendum Microsoft og Roman Abramovich eigandi Chelsea.

Í frétt á netsíðu danska viðskiptablaðsins Börsens kemur fram að hér sé ekki um ódýr leikföng að ræða þó vissulega sé hægt að fá kafbáta í öllum verðflokkum. Dýrustu bátarnir kosta á milli fjögurra og fimm milljarða króna en þeir eru líka fimm hæða og geti rúmað nuddpotta og vínkjallara auk margra lúxuskáeta. Ekki fylgir fréttinni hvort einhver hafi fjárfest í slíkum bát.

En auk mikils fjárfestingakostnaðar getur rekstur slíkra báta verið mikill enda ekki á allra færi að stýra þeim.