
Erfitt er að gera upp á milli þeirra lúxusbifreiða sem ofurnjósnarinn James Bond hefur fengið að keyra um á í gegnum tíðina, en fáir hafa þó verið eins óvenjulega svalir og Lotus Esprit bíllinn sem Roger Moore keyrði í hafið í „The Spy Who Loved Me“.
Bíllinn sá var nefnilega svo kúnstugur að hann breyttist í kafbát þegar hann snerti hafflötinn, eða þannig var það allavega í myndinni.
Svo skemmtilega vill til að í atriðunum sem gerðust neðansjávar var notaður sérstaklega breyttur Lotus Esprit bíll sem búið var að breyta í raunverulegan kafbát, en að loknum tökum á myndinni var hann settur í geymslu þar sem hann gleymdist í tíu ár.
Geymslurýmið var svo boðið upp árið 1989 í blindu uppboði og hinn stálheppni kaupandi hefur undanfarin ár sýnt bílinn reglulega.
Bíllinn, sem hefur fengið staðfesta upprunavottun, verður boðinn upp að nýju í september næstkomandi í London, en ekki er ljóst hvaða verðhugmyndir seljandi hefur.
Bíllinn var smíðaður af Perry Oceanographic í Flórída í Bandaríkjunum og er eins og áður segir fullfær kafbátur. Í frétt CTV.ca er haft eftir Max Girardo, forstjóra uppboðshússins RM Auctions, að án efa sé um að ræða einhverja flottustu strandgræju sem hönd sé á festandi.