*

Matur og vín 18. febrúar 2016

Kaffi í góðum vínanda og gleði

Kaffitár hefur opnað sitt áttunda kaffihús í Safnahúsinu. Safnahúsið er eitt fallegasta hús landsins sem er í eigu Íslendinga.

Eydís Eyland

Í Safnahúsinu hefur Kaffitár hreiðrað um sig með sitt áttunda kaffihús. Það verður með öðru sniði en hin hefðbundu Kaffitár staðir þar sem það hefur vínveitingaleyfi. „Í Safnahúsinu verður hægt að kaupa bjór, vín og kaffikokteila sem er ekki á öðrum stöðum Kaffitárs,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir forstjóri Kaffitárs. „Það verður boðið upp á fjölbreyttari mat þar en matreiðslumeistarinn Sveinn Kjartansson er að vinna að þeirri vöruþróun. Góða kaffið, brauð og kökur er samt aðalatriðið eins og annarstaðar.“

Sætin inni á kaffihúsinu eru 50 talsins en svo er í húsinu góðir fundasalir fyrir móttökur og minni fundi sem hægt er að leigja auk þess að mörg barnahorn eru í húsinu. Það verður gott útisvæði í sumar fyrir framan húsið fyrir þá sem vilja nýta sér það. Kaffitár í Safnahúsinu er opið alla virka daga frá 8-17 og einnig mánudaga en þá er sýningin í safninu lokuð. Um helgar er opið frá 10-17.

Kaffitár í Bankastræti mun halda sínu striki og verður opið alla daga til kl. 20.00 eins og vanalega. „Við erum nýbúin að innrétta þann stað mjög flott og þar er oft mikið að gera,“ segir Aðalheiður.