*

Matur og vín 17. febrúar 2016

Kaka ársins 2016

Henry Þór Reynisson er höfundur köku ársins 2016. Sala á kökunni hefst föstudaginn 19. febrúar næstkomandi.

Eydís Eyland

Henry Þór bakari hjá Reyni bakara á sigurkökuna í keppninni Kaka ársins 2016. 

Landssamband bakarameistara efndi nýlega til árlegrar keppni um Köku ársins. Keppnin fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins.  Keppnin var haldin í samstarfi við Nóa Síríus og inniheldur Nizza súkkulaðismjör frá Nóa.

Alls bárust 16 kökur í keppnina í ár. Sigurkakan er lagskipt og inniheldur m.a súkkulaðisvampbotn, mjólkursúkkulaðimús, nizzakremfyllingu og Earl grey te. Hún er spreyuð að utan með mjólkursúkkulaði. Höfundur hennar er Henry Þór Reynisson hjá Reyni bakara. 

Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land á föstudaginn 19. febrúar og verður til sölu það sem eftir er ársins.