*

Hitt og þetta 7. apríl 2013

Kakkalakkar í beinni útsendingu

Á nýrri vefsíðu Animal Planet er hægt að horfa á alls konar dýr í beinni útsendingu.

Náttúrulífssjónvarpsstöðin Animal Planet hefur í tæp sautján ár skemmt áhugafólki um náttúruna og villt dýr með fræðandi myndum og sjónvarpsþáttum, þótt reyndar hafi sumum þótt áherslan verið um of á skemmtun á kostnað fræðslu undanfarin ár.

Nýjasta uppátæki stöðvarinnar er Animal Planet Live, sem er heimasíða þar sem hægt er að horfa á beinar útsendingar af alls konar dýrum í dýragörðum eða dýraathvörfum.

Hægt er að horfa á kyrrahafsfiska synda um í sædýrasafninu í Baltimore, mörgæsir í sædýrasafninu í New Orleans eða sæta hvolpa og kettlinga í dýraathvarfi í Washington.

Óvenjulegasta útsendingin er hins vegar af kakkalökkum í New Orleans. Kakkalakkarnir eru í sérstöku búri, sem lítur út eins og eldhús í venjulegu heimili og þar ganga þeir um eins og þeir eigi staðinn sjálfir, eins og sjá má hér að neðan.

Á vefsíðunni www.apl.tv er hægt að fylgjast með öllum útsendingunum.