*

Bílar 26. maí 2013

Kappakstur og kampavín í Monaco

Monte Carlo kappaksturinn, hápunktur Formúlu 1 mótaraðarinnar, er hafinn.

Monte Carlo kappaksturinn hófst kl. 12 í furstadæminu Monaco. Flestum þykir kappaksturinn hápunktur Formúlu 1 mótaraðarinnar.

Brautin í Monaco er mjög erfið, þröng og mikil hætta á að keyra utan í varnargirðingu.

Nico Rosberg á Mercedes AMG náði ráspól í gær. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton náði öðrum pól og  Sebastian Vettel á Red Bull þriðji. Lítill munur var á tíma þriggja efstu ökumanna.

Framúrakstur er mjög erfiður á brautinni þrátt fyrir að mikill hraðamunur sé á bílum. Dekkjaslit getur hins vegar sett strik í reikning keppenda og svo auðvitað eins og í öllum kappakstri, árekstrar og bilanir.

Fræga og ríka fólkið

Prinsinn af Mónakó ók hring fyrir kappaksturinn ásamt prinsessunni á Lexus sportbíl.

Fræga og ríka fólkið mætir á kappaksturinn. Margir þeirra koma sér fyrir í snekkjum við höfnina, en þaðan er mjög gott útsýni yfir brautina. Meðal þeirra sem eru á svæðinu eru leikonan Cameron Diaz og gamli strandvörðurinn og söngvarinn David Hasselhoff.

Stikkorð: Monte Carlo  • Monaco