*

Hitt og þetta 5. janúar 2014

Kardashian-vörurnar skila milljörðum

Kardashian-ilmvötn hafa verið framleidd í gegnum tíðina fyrir 6 milljarða íslenskra króna.

Fatalínur, ilmvötn, snyrtivörur, brúnkukrem og bækur eru meðal þess sem kemur úr framleiðslu Kardashian-fjölskyldunnar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umfjöllun í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, um Kardashian-hagkerfið. 

Talið er að eingöngu ilmvötnin hafi í gegnum tíðina gefið af sér 50 milljónir Bandaríkjadala eða 6 milljarða íslenskra króna. DASH verslanir þeirra systra hafa líka vakið mikla athygli enda heilu þáttaraðirnar sem snúast um þær. Búðirnar eru þrjár talsins, í Los Angeles, Miami og New York. Nýja fatalínu þeirra systra hönnuðu þær fyrir Sears sem á að hala inn 200-300 milljónum Bandaríkjadala sem nemur 24 til 36 milljörðum íslenskra króna. Systurnar fá síðan skerf af þessari upphæð. Þetta þýðir þó ekki að allar vörur fjölskyldunnar hafi gengið farsællega. 

Í fyrra átti að setja á markað snyrtivörusett í mismunandi útgáfum, eitt sett fyrir hverja systur. Þessi snyrtivörulína hét Khroma en þeim systrum yfirsást víst annað snyrtivörumerki undir heitinu Kroma. Þær voru því lögsóttar og farið var fram á 10 milljónir Bandaríkjadala eða rúman einn milljarð króna. Þó að systrunum muni nú ekki mikið um slíka upphæð þá breyttu þær nafninu í Kardashian Beauty og komust hjá sektinni.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunarinnar um Kardashian-hagkerfið, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði. Að auki er margt, margt fleira....

Stikkorð: Kardashian