*

Menning & listir 14. mars 2013

Karlar föðmuðust meira í gamla daga

Í gamla daga snertust karlmenn miklu meira en þeir gera í dag ef marka má bók John Ibson, „Picturing Men: A Century of Male Relationships.“

John Ibson, höfundur bókarinnar: „Picturing Men: A Century of Male Relationships“, hefur komist að því að karlmenn föðmuðust, leiddust og knúsuðust mun meira í gamla daga en þeir gera í dag. Vefsíðan Stuff.co.nz segir frá málinu á vefsíðu sinni.

Í bókinni má finna 144 ljósmyndir frá 1850 til 1950. Myndirnar eru af körlum úr viðskiptalífinu, sjómönnum, námuverkamönnum og íþróttamönnum. Á myndunum leiðast þeir gjarnan, horfast í augu eða sitja í fanginu hver á öðrum.

Ibson tekur fram að auðvitað séu líkur á því að einhverjir karlanna hafi verið samkynhneigðir en það sé ekki endilega skýringin á hlýjunni á milli karlanna.

Hann segir að í þá daga hafi þótt fullkomlega eðlilegt fyrir tvo karla að stilla sér upp fyrir myndatöku í faðmlögum eða hönd í hönd: „Í þá daga var félagslega samþykkt að gagnkynhneigðir karlar föðmuðust og leiddust á almannafæri, annað en í dag.“ Ibson segir þetta hafa breyst í kringum 1950  vegna aukinna fordóma og ofsókna í garð samkynhneigðra.

Stikkorð: Karlar  • Ljósmyndir