*

Hitt og þetta 21. janúar 2013

Karlarnir vilja stóra sturtuhausa

Úrvalið er nóg þegar finna þarf blöndunartæki fyrir heimilið. En hvað ætli góður sturtuhaus kosti?

Lára Björg Björnsdóttir

„Haus er bara ekki haus hjá okkur. Það er munur, annar er úr stáli og hinn úr plasti,“ segir Einar Guðjónsson hjá Tengi. 

Einar segir úrvalið nóg en fólk þurfi að vita hvað það vilji: „Merkin eru komin í þetta svo það er allt til í þessu. Ég á sturtuhaus úr plasti á 2500 krónur og stálhausa á 35 þúsund og síðan eitthvað mikið, mikið dýrara.“ 

En hvað ætli dýrustu hausarnir kosti? „Ég er með hausa frá Vola sem eru á 110 þúsund en þeir eru þannig að ein stöng kemur út úr veggnum. Við getum síðan pantað hausa á allt upp í 400 þúsund krónur. Ég á haus á því verði frá Bossini með ljósum sem breyta um lit eftir hita.“

Einar segir vinsælustu hausana gjarnan vera úr plasti sem líti út fyrir að vera í dýrari kantinum: „Fólk hugsar mikið um útlitið á hausunum. Sérstaklega karlmennirnir. Og við viljum hafa hausana stóra. Ég veit ekki hvers vegna en svona er þetta. Við viljum að það sprautist beint niður yfir okkur en konurnar vilja oft hafa þetta öðruvísi. Þær vilja vernda hárið. Svo það er að mörgu að huga,“ segir Einar. 

Stikkorð: Heimilistæki  • Einar Guðjónsson  • Tengi