*

Hitt og þetta 27. nóvember 2019

Katrín með Liverpool trefil á þingi

Forsætisráðherra skartaði Liverpool trefli við umræður um atkvæðagreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Jóhann Óli Eiðsson

Hart hefur verið karpað niðri á þingi í síðustu umræðu fjárlaga fyrir næsta ár. Slíkt er alvanalegt. Það sem er hins vegar óvanalegt er að í umræðunum situr Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í sæti sínu með Liverpool-trefil um hálsinn.

Umræddan trefil fékk Katrín í afmælisgjöf frá eiginmanni sínum í upphafi árs. Gjöfin varð fyrir valinu þrátt fyrir að eiginmaður hennar sé gallharður stuðningsmaður Man Utd.

Fleiri stuðningsmenn Liverpool eru ráðherrar í ríkisstjórninni en sú saga hefur flogið fjöllum hærra að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, klæðist reglulega „full kit“ innan undir jakkafötunum þegar hann neyðist til að sinna starfsskyldum ráðherra á sama tíma og leikir eru í gangi.

Af öðrum tíðindum þingfundarins má það nefna að talsvert hefur verið þráttað um það hvort aukafjárveitingar til Héraðssaksóknara og Skattrannsóknarstjóra eigi að veita á fjárlögum næsta árs eða gera ráð fyrir aukaútgjöldum í varasjóðum vegna þeirra. Gerði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, því í skóna að stjórnin hefði staðið tæpt í gær. Við upphaf þingfundar var til að mynda tilkynnt að Andrés Ingi Jónsson hefði sagt skilið við stjórnina.

„Hafi verið „panikk“ í ríkisstjórninni í gær þá gleymdist alveg að láta samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formann Framsóknarflokksins vita af því,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson á fundinum við mikinn hlátur viðstaddra.