*

Tölvur & tækni 12. febrúar 2013

Kaupa vörur með því að svara Twitter skilaboðum

Kortafyrirtækið American Express hefur hannað kerfi sem gerir fólki kleift að kaupa vörur og þjónustu á Twitter.

Kortafyrirtækið American Express í Bandaríkjunum hefur gert samstarfssamning við Twitter sem felur það í sér að fólk geti nú keypt vörur og þjónustu með því einu að senda skilaboð á Twitter.

Til að geta nýtt sér þjónustuna verður fólk að tengja saman reikninga sína hjá Amex annars vegar og Twitter hins vegar. Í frétt Financial Times er vitnað í Leslie Berland, talsmann Amex, sem segir að með því einu að svara Twittertilboði fyrirtækja geti notendur keypt vörur á netinu án þess að þurfa að yfirgefa Twittersíðuna.

Athyglisvert er að Twitter fyrirtækið mun ekki halda eftir neinu af söluandvirðinu, enda segir Berland að tæknin á bak við kerfið sé öll unnin af kortafyrirtækinu. Hins vegar gæti Twitter hagnast á því að fleiri fyrirtæki muni í framtíðinni borga fyrir það að þeirra skilaboð birtist hjá fleiri notendum.

Stikkorð: Twitter  • American Express