*

Sport & peningar 21. janúar 2015

Kaupir fimmtungshlut í Spánarmeisturunum

Kínverskur milljarðamæringur hefur fest kaup á 20% hlut í knattspyrnufélaginu Atletico Madrid.

Auðjöfurinn Wang Jianlin, sem er næstríkasti maður Kína, hefur fest kaup á 20% hlut í spænska knattspyrnuliðinu Atletico Madrid. BBC News greinir frá þessu.

Liðið varð Spánarmeistari á síðasta keppnistímabili í spænsku úrvalsdeildinni og skaut þá stórliðunum Real Madrid og Barcelona ref fyrir rass. Kaupverðið er talið nema 45 milljónum evra, en fjárhæðin jafngildir tæpum sjö milljörðum íslenskra króna. Er það tæpur helmingur kaupverðsins sem Real Madrid greiddi Manchester United við kaupin á knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo.

Knattspyrnufélagið hefur átt í fjárhagsörðugleikum að undanförnu og skuldar meira en hálfan milljarð evra. Kaupin gætu hins vegar hjálpað félaginu að greiða úr skuldaflækjunni og er þess vænst að þau laði að aðdáendur á Asíumarkaði. Auk þess er búist við auknum áhuga frá kínverskum fyrirtækjum á auglýsingasamningum við klúbbinn.