*

Menning & listir 21. desember 2012

Kaupir kvikmyndaréttinn að bókum Ragnars

Þorvaldur Davíð Kristjánsson hefur í samstarfi við Sagafilm tryggt sér kvikmyndarétt á þremur spennusögum Ragnars Jónassonar.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari, hefur tryggt sér kvikmyndaréttin á þremur bókum unga spennusagnarithöfundarins Ragnars Jónassonar. Um er að ræða bækurnar Snjóblindu, Myrknætti og Rof sem kom út núna fyrir jólin.

Þá hefur Þorvaldur Davíð jafnframt gengið til samninga við Sagafilm en til stendur að framleiða sjónvarpsþætti byggða á bókunum. Bækurnar gerast allar á Siglufirði og sú nýjasta einnig í Héðinsfirði. Þorvaldur Davíð og Sagafilm hafa einnig fengið heimild til að gera sjálfstæða þætti byggða á aðalpersónunni, lögreglumanninum Ara Þór.

Þorvaldur Davíð hyggst sjálfur fara með aðalhlutverkið í þáttunum eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Byrjað verður að vinna að handriti á þáttunum á næsta ári og búist er við því að framleiðsla á þeim hefjist árið 2014.