*

Hitt og þetta 23. nóvember 2005

Keilir með nýtt æfingasvæði

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði hyggst opna nýtt og glæsilegt æfingasvæði sumarið 2006 við Hvaleyrarvöllinn. Smíði og jarðvegsvinna er hafin vegna svæðisins. Á svæðinu verður aðstaða til að æfa styttri högg,15-20 metra inn á fullkomna flöt. Einnig verður aðstaða til að slá í net af 15-20 metra færi þar sem lofthæð er 8 metrar. Einnig verður þarna skrifstofa golfkennara, salerni, móttaka, unglinga- og fyrirlestraaðstaða. Kostnaður liggur ekki fyrir.

Byrjað var að spila Hvaleyrarvöllinn í núverandi mynd árið 1997. Hannes Þorsteinsson teiknaði og hannaði fyrri níu holurnar eða "hraunið", en fleiri komu að hönnun síðari níu holanna. Fyrri níu holurnar eru í Hvaleyrarhrauni og er spilað í suður frá klúbbhúsinu og svo til baka. Síðari níu holurnar eru á gamla Hvaleyrartúninu þar sem spilað er meðfram strandlengjunni. Hvaleyrarvöllur hefur í gegnum árin verið annálaður fyrir góðar brautir og eftir að nýi völlurinn í Hvaleyrarhrauni var opnaður hafa flatirnar fengið lofsverða athygli fyrir að vera sérstaklega góðar.